15.12.2007
Leikurinn gegn Japan endaði öllu verr en við áttum von á þar eð japanarnir náðu að skora sautján mörk gegn einu marki okkar Íslendinga. Greinilegt var að erfiður leikur gegn Ítölum tólf tímum áður sat í mönnum og gáfu þeir sérstaklega eftir í síðustu lotu en á fékk íslenska liðið á sig níu mörk. Mark Íslands í leiknum skoraði Úlfar Jón Andrésson og maður leiksins úr íslenska liðinu var valinn Kolbeinn Sveinbjarnarson. Eftir leikinn var haldið upp á hótel í síðbúinn hádegisverð og seinnipartur dagsins var notaður til að hvíla sig og liðka uppá skrokkinn. Einnig hafa menn verið að fá fréttir að heiman enda nokkur munur á veðrinu hér í Canazei og heima. Hér hefur allan tímann fínt veður, kanski smá vindur en oftast heiðskírt og sól en þannig er eimitt veðrið þegar þetta er skrifað, frostið er reyndar -15 stig. Dagurinn eftir var tekinn snemma og stefnan tekin á Bolsano, sem er bær hér í nágrenninu. Ferðin þangað tekur u.þ.b. 90 mínútur í rútu en eins og sumstaðar annarsstaðar hér er ekki hægt að fara hratt yfir þar sem mikið er um beygjur á vegum þegar keyrt er yfir fjöllin. Ferðin til Bolsano var nú aðallega farin til að skipta aðeins um umhverfi en einhverjir leikmenn urðu eftir og eyddu þeir tímanum í að lesa undir próf sem bíða þeirra þegar heim verður komið. Menn löbbuðu um bæinn, skoðuðu í búðir og enduðu ferðina á að leika sér í fótbolta. Þegar heim var komið beið kvöldmatur og afslöppun nema hvað hluti af fararstjórn fór í Gala-kvöldverð sem mótshaldarar héldu. Í morgun var síðan tekin létt æfing og nú er aðeins beðið eftir að síðasti leikurinn hefjist en hann er gegn Suður-Kóreu. Þeir eru eins og japanarnir, vel samæfðir og mjög snöggir á skautunum. Vonandi ná okkar menn sínum besta leik en til þess að eiga einhverja möguleika verða þeir að passa sig á að lenda sem minnst í refsiboxinu. Eftir leikinn verður síðan hafist handa við að pakka og gera klárt fyrir heimför, áætlað er að fara héðan um miðnætti en brottför frá Feneyjum er klukkan 06.20 í fyrramálið og lent tæpum tveimur tímum síðar í Amsterdam. Liðið flýgur síðan með flugi 503 frá Amsterdam og heim og nú er bara að vona að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir og að við náum að komast heim samkvæmt áætlun.