U20 - 3. sólahringur. Ítalía

11.12.2007

Síðast þegar leiðir skildu var leikur Íslands og Belgíu að hefjast og mikil spenna í lofti. Rétt fyrir leik tókst að útvega Hirti Geir betri buxur, þ.e. buxur sem bæði pössuðu betur og voru miklu léttari en þær sem hann hafði fengið lánaðar daginn áður. Eitthvað þurftu farastjórar að brasast svona eins og við er að búast en net og tölvumál hafa verið okkur svolítið erfið síðan við komum. Svo var klukkan einfaldlega orðin eitt og kominn tími á leik. Rétt eins og í fyrri leiknum náðu okkar menn forystunni og það reyndar með sérdeilis fallegu marki frá bláu línunni og var þar að verki Sigurður Óli Árnason. En eftir það fór að síga á ógæfuhliðina og belgarnir gengu á lagið. Leikurinn endaði síðan 1 – 5 belgunum í vil og því annar tapleikurinn í röð staðreynd. Að leik loknum var Pétur Maack valinn maður leiksins í íslenska liðinu og kom það þessum sem þetta skrifar ekki mjög á óvart. Íslenska liðið hélt síðan heim á hótel nema hvað fararstjórinn tók að sér að vera eftirlitsmaður á næst leik sem var milli Japan og Rúmeníu. Svona til að skýra málið aðeins þá er bæði eftirlitsdómari og eftirlistsmaður á hverjum leik í svona keppni. Eins og orðið gefur til kynna er það hlutverk eftirlitsdómarans að fylgjast með dómurum leiksins en hinsvegar er hlutverk eftirlitsmannsins að fylgjast með að öll umgjörð leiksins sé rétt. Eftir  kvöldmat héldu flestir á leik Ítala og Suður-Kóreu enda ekki ólíklegt að um væri að ræða úrslitaleik riðilsins. Leikurinn var mjög skemmtilegur á að horfa, hraður og harður þó án þess að það færi út í neinar öfgar. Á endanum höfðu heimamenn sigur gerðu fjögur mörk gegn þremur mörkum kóreumanna. Liðsmenn fóru síðan upp á hótel og tóku fáeina leiki í pool á meðan fararstjórar fóru stjórnendafund með mótshöldurum, á þeim er m.a. rædd framkvæmd mótsins og eftirlitsmenn gefa skýrslu frá þeim leikjum sem þeir höfðu með að gera. Uppúr ellefu var mannskapurinn síðan sendur í háttinn. Menn voru síðan misjafnlega hressir þegar þeir voru ræstir, en í dag þriðjudag er frídagur. Stór hópur liðsins ákvað að fara í ferð upp á fjallstopp og skoða útsýnið en afgangurinn er heima á hóteli að læra en nokkuð af leikmönnunum á á mæta í próf strax daginn eftir að við komum heim. Meira síðar.
 
HH