U20 - 2. sólahringur. Ítalía
10.12.2007
Á sama tíma og ég setti síðustu færslu var verið að hefla svellið fyrir leik íslendinga og rúmena. Tekist hafði að redda Hirti skautum (af Helga Páli) og svo fékkst restin af gallanum frá góðviljuðum heimamanni. Buxurnar voru reyndar í stærra og þyngra lagi og því enn verið að vinna í að athuga með betri buxur. Eins og sjá mátti á tenglinum sem ég setti inn í síðustu frétt lauk leiknum með því að Rúmenar skoruðu sex mörk gegn fjórum mörkum okkar manna. Menn voru því að vonum daufir í dálkinn eftir leikinn en segja má að með smá heppni hefði mátt ná hagstæðari úrslitum. Síðasta mark Rúmena var til að mynda skorað 40 sekúndum fyrir leikslok eftir að íslenska liðið hafði tekið markmann sinn af velli og sett inná útispilara í staðinn til að freista þess að jafna leikinn. Það sem helst var athugavert við leik okkar manna var að þeir fengu rúmlega helmingi fleiri refsimínútur en andstæðingurinn. Rúmenarnir nýttu það mjög vel enda skorðu þeir helming marka sinna í svokölluðu “power play”, það er þegar við vorum einum manni færri og eitt marka svo í blálokin þegar markvörðurinn var utan valla. Öll okkar mörk komu hinsvegar þegar jafnt var í liðum. Að leik loknum var Úlfar Jón Andrésson valinn besti leikmaður íslenska liðsins. Eftir mikið át af pasta, grænmeti og ýmsu fleiru fór þó að léttast brúnin á mönnum en þess má geta að þar sem leikurinn var leikinn klukkan klukkan eitt að staðartíma seinkaði hádegismatnum til klukkan fjögur. Síðan var afslöppun með margsskonar spilamennsku, gönguferðum og vídeóglápi hjá flestum en sumir fóru þó og horfðu á Suður-Kóreu hafa sigur á Belgum. Belgar, sem eru andstæðingar okkar á morgun, stóðu lengi vel í andstæðingunum sem þó voru álitnir sterkari fyrirfram. Það var ekki fyrr en um miðjan 3ja leikhluta sem kóreumönnunum tókst að innbyrða sigurinn og belgarnir greinilega sýnd veiði en ekki gefin. Eftir stuttan fund með leikmönnum þar sem þjálfarinn þakkaði þeim fyrir það sem vel var gert í leik dagsins og benti á það sem betur mætti fara var sest að kvöldverðarborðinu. Síðan héldu allir niður í skautahöll, en þess má geta að hún er í 3ja mínútna göngufæri, og horft á síðasta leik dagsins. Þar unnu Ítalir næsta auðveldan sigur á Japönum í leik sem var hraður og skemmtilegur en heimamenn voru þó ávallt með yfirhöndina. Íslenska liðið átti síðan tíma á ísæfingu klukkan átta í morgun en þjálfarinn ákvað að fella hana niður og leyfa leikmönnum frekar að sofa út og hvílast. Eftir morgunmat var þó farið í gönguferð og spekúlerað og spjallað og þar sem er frídagur á morgun ætla einhverjir íslensku leikmannanna að taka sér ferð með kláf uppá fjallstopp. Þegar þetta er sett á netið er leikurinn gegn Belgum að hefjast og vonandi ná íslensku leikmennirnir góðum leik en við bendum áfram á tengilinn á heimasíðu IIHF þar sem hægt er að fylgjast með framvindunni á leiknum í rauntíma.
HH