Ferðalag U18 ára liðsins hófst snemma að morgni föstudagsins og hefur fram að þessu gengið ágætlega fyrir sig þó alltaf sé eitthvað smávægilegt sem þarf að gera og græja. Búnaði var dreift til leikmanna í flugstöðinni og svo kvöddu menn sína nánustu. Innritunin gekk ágætlega þangað til starfsmennirnir uppgötvuðu að Daníel Steinþór Magnússon og Daníel Hrafn Magnússon er ekki einn og sami maðurinn. Sá fyrrnefndi hafði semsagt verið bókaður inn á miða þess síðarnefnda og nokkurra stund tók að snúa þessu á réttan veg.
Eftir stutt stopp í Frankfurt þar sem við hittum fyrir Villa þjálfara og síðan var haldið áfram til Belgrade. Mesta spennan eftir að lent er á mótsstað er að fara á færibandið og athuga hvort allur farangur hafi skilað sér. Öllum til mikils léttis reyndist það raunin svo engar skýrslur þurfti að gefa heldur var hægt að fara beint upp í rútu og þaðan niður í skautahöll. Töluvert af leikmönnum könnuðust við sig í höllinni eftir að hafa verið hérna í janúar. Svolítið þröngt er um mannskapinn en við höfum nú samt fengið einn aukaklefa þar sem geyma má ýmislegt dót. Á meðan fararstjóri fór á tveggja tíma fund til að skrá liðið til keppni ofl. hélt liðið á æfingu sem hófst klukkan níu að kvöldi og stóð í klukkustund.
Morgunin eftir var vaknað klukkan 8 og tekinn morgunverður. Morgunæfingu var hinsvegar sleppt og þess í stað tekinn stuttur göngutúr þar sem m.a. var keyptur fótbolti sem nota mætti í upphitun fyrir æfingar og leiki. Vegna leiktímans gegn Belgum var hádegismatur snæddur klukkan 10.30 og síðan haldið í leikinn stuttu seinna. Leikurinn fór eins og hann fór, við töpuðum með 3 mörkum gegn 1 gegn Belgum. Ég er hinsvegar ekki frá því að við höfum skorað flottasta markið í leiknum en við verðum bara a skora fleiri. Kvöldmatur var tekinn um klukkan 16.30 og svo björguðu strákarnir sér flestir um eina máltíð í viðbót síðar um daginn.
Menn fóru síðan snemma í háttinn, enda ekki vanþörf á, því það var ræs klukkan 06.15 í morgun enda áttum við fyrstu æfingu á eftir dómurunum. Menn hvíla sig nú fyrir leikinn gegn Hollendingum sem verður klukkan 13.00 að staðartíma.
Með kveðju frá Belgrad.
HH