Tap í síðasta leik

Íslenska landsliðið tapaði í dag síðasta leik sínum á heimsmeistaramótinu sem lýkur í kvöld í Serbíu Svartfjallalandi.  Mótherjar dagsins voru Ísraelar sem tryggðu sér sigurinn í keppninni með sigri á Íslandi og fara því upp í 1. deild að ári.  Við okkur blasir hins vegar fall í 3. deild að ári þar sem við munum etja kappi við Írland, Lúxemburg, Armeníu og svo annað hvort Tyrkland eða Nýja Sjáland.
 
Leikurinn í dag var hraður og skemmtilegur að úrslitunum undanskildum.  Fyrsta  lota leið án þess að nokkurt  mark væri skorað og í 2. lotu skoruðu Ísraelsmenn tvö mörk, bæði úr powerplay án þess að okkar menn næðu að svara fyrir sig.  Jafnræði var með liðunum í 3. lotu sem lauk 2 - 2, lokastaðan 4 - 2.  Mörk Íslands skoruðu Úlfar Andrésson og Björn Már Jakobsson.  Besti maður liðsins í leiknum var valinn Emil Alengard.
 
Þrátt fyrir að falla um deild þá var íslenska liðið að leika vel og náði góðum úrslitum í öllum leikjunum að Serbíuleiknum undanskildum.  Sem dæmi um hve jöfn deildin var þá má benda á þennan síðasta leik þar sem efsta og neðsta liðið tókust á í jöfnum leik.  Venjulega hefur tugur ef ekki tugir marka skilið á milli efsta og neðsta liðsins.  Liðið heldur heim á morgun og er brottför af hótelinu kl. 04:00 að íslenskum tíma.