Tap fyrir Litháen

Í kvöld spilaði Íslenska landsliðið við Litháen í næst síðasta leik liðsins á mótinu.   Strákarnir héldu uppteknum hætti frá síðasta leik og börðust eins og ljón frá fyrstu mínútu.  Á 7. mínútu leiksins dró til tíðinda þegar fyrirliði liðsins, Birkir Árnason tók pökkinn fyrir aftan sitt eigið mark og fór “coast to coast” og skoraði eftir að hafa stungið alla leikmenn Litháenska liðsins af.
 
Fleiri mörk voru ekki skoruð í lotunni og því staðan 1 – 0 þegar 2. lota hófst.  Eitthvað hefur verið lesið yfir þeim erlendu á milli lota því þeir mættu dýrvitlausir til leiks og réðu lögum og lofum allar 20 mínúturnar.  Sem dæmi um lætin þá skutu Litháar alls 23 sinnum á íslenska markið án þess að nokkurt einasta kæmi frá íslenska liðinu.  Íslensku strákarnir stóðu sig engu að síður frábærlega í vörninni og börðust á hæl og hnakka en fengu engu að síður á sig tvö mörk, sem þó verður að teljast lítið eins og lotan spilaðist.
 
3. lotan var í járnum framan af en það voru Litháar sem bættu við sínu 3. marki á 7. mínútu lotunnar.  Gauti Þormóðsson minnkaði svo muninn nokkrum sekúndum síðar eftir sendingar frá Úlfari og Emil, og staðan hélst 3 -2 alveg fram á 17. mínútu og gríðarleg spenna í leiknum.  Þá gerðist atvik sem telja verður vendipunkt í leiknum.  Emil Alengard sendi langa stungusendingu fram á Gauta Þormóðsson sem komst einn í gegnum í vörn andstæðinganna en á honum var brotið og dæmt víti.
 
Vítið tók Emil Alengard og allt ætlaði um koll að keyra í höllinni.  Ekki tókst Emil að skora en í staðinn óðu Litháar upp strax eftir uppkast og skoruðu og breyttu stöðunni í 4 – 2.  Við þetta datt allur botn úr leik íslenska liðsins og Litháar gengu á lagið og skoruðu 3 mörk á síðustu þremur mínútunum, lokastaðan 7 – 2.
 
Þrátt fyrir þetta tap geta drengirnir borið höfuðið hátt og við getum verið stolt af þeim.  Þarna áttu þeir í fullu tré við fyrrum sovétríki með langa hokkíhefð og þessi úrslit sýna vel hve miklar framfarir hafa orðið á íslensku hokkí á undanförnum árum.   
 
Ísland spilar síðasta leik sinn á mótinu á sunnudaginn og þá gegn Mexíkó og verður sá leikur um 4. sætið.  Rúmenar eiga eftir að spila við Króatíu og Ungverja og að öllum líkindum tapa þeir báðum þeim leikjum, sem þýðir fall fyrir þá niður í 3. deild.