Í gærkvöld fór fram annar leikur í úrslitum íslandsmótsins í íshokkí milli Skautafélags Reykjavíkur og SA Víkinga. Leiknum lauk með sigri Skautafélags Reykjavíkur sem gerðu þrjú mörk gegn tveimur mörkum SA-Víkinga eftir að staðan hafði verið jöfn 2 - 2 að loknum hefðbundnum leiktíma. Egill Þormóðsson tryggði síðan SR-ingum sigurinn þegar um fimm mínútur voru liðnar af framlengingu með gullmarki.
Nokkurrar taugaspennu virtist gæta í leikmönnum begga liða í byrjun og greinilegt að liðin ætluðu ekki að missa leikinn frá sér. Eitt mark skilaði sér þó í lotunni og var þar að verki Björn Már Jakobsson fyrir SA Víkinga en markið kom þegar lotan var tæplega hálfnuð.
Í annarri lotu hertu SR-ingar nokkuð á sókninni en Víkingar náðu að verjast vel og ekkert mark kom í lotunni.
Í þriðju lotunni komu norðanmenn til baka með hvaða sóknarþungann varðaði en það voru SR-ingar sem áttu fyrstu tvö mörkin í lotunni. Björn Róbert Sigurðarson jafnaði fyrir þá leikinn þegar um fimm mínútur voru liðnar af lotunni. Gauti Þormóðsson kom þeim síðan yfir um miðja lotu og lengi vel leit út fyrir að það mark dyggði. En Víkingar gáfust ekki upp og þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks jafnaði Steinar Grettisson leikinn fyrir þá leikinn og tryggði þeim framlengingu. Þar tryggði síðan Egill Þormóðsson SR-ingum sigurinn einsog áður hafði komið fram.
Staða SR-inga er orðin vænleg enda þeir komnir 2 - 0 yfir í einvíginu. Víkingar söknuðu tveggja leikmanna í gær þeirra Jóns B. Gíslasonar og Ingólfs Elíassonar en vonast er til að þeir verði tilbúnir í næsta leik. Sá leikur fer fram á morgun, fimmtudag, og verður á Akureyri og hefst klukkan 19.00
Mörk/stoðsendingar SR:
Björn Róbert Sigurðarson 1/0
Gauti Þormóðsson 1/0
Egill Þormóðsson 1/0
Tómas Tjörvi Ómarsson 0/1
Refsingar SR: 12 mínútur
Mörk/stoðsendingar SA Víkingar:
Steinar Grettisson 1/1
Björn Már Jakobsson 1/0
Andri Már Mikaelsson 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Refsingar SA Víkingar: 10 mínútur
Viðtöl við leikmenn af mbl.is má finna hér:
Egill Þormóðsson
Ingvar Þór Jónsson
Steinar Páll Veigarsson
Mynd: Ómar Þór Edvardsson
HH