Fara í efni
SR - SA umfjöllun
30.03.2009
Í gær léku Skautafélag Reykjavíkur og Skautafélag Akureyrar 4. leik liðanna í úrslitum íslandsmótsins í íshokkí og fór leikurinn fram í Laugardal. Leiknum lauk með sigri Skautafélags Reykjavíkur sem gerði 7 mörk gegn 3 mörkum gestanna frá Akureyri. Með sigrinum tryggðu SR-ingar sér Íslandsmeistaratitilinn keppnistímabilið 2008-9.
Í leikjunum hingað til hafa SA-menn hingað til tekið forystuna og SR-ingar verið að elta en breyting varð á því í þetta sinn því Pétur A Maack kom heimamönnum yfir á 5. mínútu. Áður en flautað var til leikhlés hafði Gauti Þormóðsson bætt við 2 mörkum og staðan því 3 – 0 fyrir SR-inga og á brattann að sækja fyrir gestina.
Í upphafi annarrar lotu skoraði Stefán Hrafnsson hinsvegar fyrir SA-menn og möguleiki fór að opnast fyrir þá að koma sér inn í leikinn. Kristján Gunnlaugsson var hinsvegar fljótur að svara því einungis þrettán sekúndum seinna hafði hann aukið forskot SR-inga. Björn Már Jakobsson kom SA-mönnum hinsvegar aftur á bragðið um miðja aðra lotu og staðan því 4 – 2 og allt gat gerst. Áður en lotan var úti bætti hvort lið við marki fyrst Gauti Þormóðsson fyrir SR-inga og strax í kjölfarið Jón B. Gíslason fyrir norðanmenn. Staðan því 5 – 3 í lok annarrar lotu.
Þriðja lotan var síðan eign SR-inga hvað markaskorun varðar en þar náðu þeir að setja tvö mörk. Segja má að þeim mörkum hafi verið bróðurlega skipt í orðsins fyllstu merkingu þvi þau skoruðu Gauti og Egill Þormóðssynir.
Mörk/stoðsendingar SR:
Gauti Þormóðsson 3/0
Egill Þormóðsson 2/2
Pétur A. Maack 1/0
Kristján F. Gunnlaugsson 1/0
Daniel Kolar 0/2
Guðmundur Björgvinsson 0/1
Arnþór Bjarnason 0/1
Þorsteinn Björnsson 0/1
Brottvikningar SR: 39 mín
Mörk/stoðsendingar SA:
Jón B. Gíslason 1/2
Stefán Hrafnsson 1/1
Björn Már Jakobsson 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Brottvikningar SA: 42 mín.
Tölfræði úrslitakeppninnar má sjá hér.
Við óskum SR-ingum til hamingju með titilinn
Myndina tók Ómar Þór Edvardsson
HH