05.02.2009
Skautafélag Reykjavíkur vann í gærkvöld Björninn með sjö mörkum gegn fimm og réðust úrslitin ekki fyrr en undir lok leiksins.
Björninn byrjaði betur og komst tveimur mörkum yfir með mörkum frá Sergei Zak og Brynjari Þórðarsyni en skömmu síðar meiddist Brynjar og varð að yfirgefa völlinn. Egill Þormóðsson minnkaði muninn fyrir SR-inga fyrir hlé og staðan því 1 – 2 eftir fyrstu lotu.
Egill bætti síðan við tveimur mörkum fyrir SR-inga og kom þeim yfir áður en þetta voru jafnfram einu mörkin í lotunni.
Í þriðju lotu héldu SR-ingar áfram ferðinni og bættu við tveimur mörkum og voru þar á ferðinni Steinar Páll Veigarsson og Ragnar Kristjánsson. En Bjarnarmenn sáu til þess að áhorfendur fengju eitthvað fyrir ferðalagið því þeir jöfnuðu leikinn og hleyptu með því spennu í hann á ný. Fyrst skoraði Vilhelm M Bjarnason fyrir þá og síðan bættu Kolbeinn Sveinbjarnarson og Úlfar Jón Andrésson við mörkum. En það voru SR-ingar sem náðu að klára dæmið en Björn R Sigurðarson kom þeim yfir, eftir stoðsendingu frá Helga Páli Þórissyni, þegar um sex mínútur lifðu leiks. Bjarnarmenn tóku undir lokin markmann sinn af velli en það gekk ekki upp sem skildi og Ragnar Kristjánsson náði að bæta við marki í autt netið þegar 5 sekúndur voru til leiksloka.
Nokkuð var um brottrekstra í leiknum en fimm mörk voru gerð þegar bæði lið voru fullskipuð, fimm mörk voru gerð þegar lið var manni eða mönnum fleiri (power play) og tvö mörk voru gerð manni undir (penalty kill).
Lotur fóru 1 – 2, 2 – 0, 4 – 3
Mörk SR:
Egill Þormóðsson 3/0
Ragnar Kristjánsson 2/0
Steinar Páll Veigarsson 1/0
Björn Róbert Sigurðsson 1/0
Andri Þór Guðlaugsson 0/1
Helgi Páll Þórisson 0/1
Brottvísanir SR: 72 mín.
Mörk Bjarnarins:
Sergei Zak 1/4
Brynjar Þórðarson 1/0
Vilhelm Már Bjarnason 1/0
Kolbeinn Sveinbjarnarson 1/0
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Gunnar Guðmundsson 0/2
Matthías S. Sigurðsson 0/1
Brottvísanir Björninn 26 mín.
Dómari leiksins var Viðar Garðarsson
Myndina tók Ómar Þór Edvarsson
HH