Fara í efni
SR - Björninn umfjöllun
13.11.2008
Í gærkvöld léku í Skauthöllinni í Laugardal Skautafélag Reykjavíkur og Björninn. Leiknum lauk með sigri SR-inga sem gerðu þrjú mörk gegn tveimur mörkum Bjarnarmanna. SR-ingar sem sóttu meira allan leikinn skoruðu fyrsta markið og var þar á ferðinni Egill Þormóðsson eftir stoðsendingu Gauta bróðir síns Þórmóðssonar. Sérlega vel var að markinu staðið hjá þeim bræðrum en þetta var eina markið sem skorað var í þriðjungnum. Strax í byrjun annarrar lotu jöfnuðu Bjarnarmenn metin með marki frá Einari Sveini Guðnasyni. Nokkuð jafnt var á með liðunum í þessari lotu en SR-ingar náðu að komast yfir þegar tæpar þrjár mínútur lifðu lotuna en markið gerði Óskar Grönhólm. Staðan var því 2 – 1 þegar flautað til þriðju og síðustu lotunnar. Lotan var spennandi allt til enda en það voru SR-ingar sem urðu fyrri til að skora og var þar á ferðinni Daniel Kolar. Stuttu seinna skoruðu Bjarnarmenn mark en það var dæmt af vegna rangstöðu. Bjarnarmenn létu þó ekki deigann síga og tæpum þremur mínútum fyrir leikslok skoraði Úlfar Jón Andrésson mark fyrir Björninn. Síðustu tvær mínútur leiksins voru æsispennadi því undir lokin misstu SR-ingar mann af velli. Bjarnarmenn tóku leikhlé og stuttu seinna skiptu þeir markmanninum sínum af velli og settu þess í stað sóknarmann inn á. En allt kom fyrir ekki og SR-ingar héldu leikinn út.
Mörk/stoðsendingar SR:
Egill Þormóðsson 1/0
Daniel Kolar 1/0
Óskar Grönhólm 1/0
Gauti Þormóðsson 0/1
Þorsteinn Björnsson 0/1
Brottvikningar SR: 24 mín.
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Einar Sveinn Guðnason 1/0
Úlfar Jón Andrésson 1/0
Gunnar Guðmundsson 0/1
Óskar Hrafn Björnsson 0/1
Brottvikningar Björninn: 49 mín.
Dómari leiksins var Viðar Garðarsson.
Myndina tók Ómar Þór Edvardsson
Sjá má mörkin í leiknum næstu tvær vikurnar hér.
HH