Skautasvell í Hafnarfirði
29.01.2008
Eins og sjá má í fríblaðinu 24stundum í morgun þá hefur verið lög fram tillaga í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um að hafinn verði undirbúningur að byggingu skautahallar í Hafnarfirði. Tillagan var svohljóðandi:
“6. Skipan starfshóps til að undirbúa byggingu skautahallar í Hafnarfirði.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að setja á stofn starfshóp skipaðan fulltrúum úr íþrótta- og tómstundanefnd og skipulags- og byggingarráði til að vinna að uppbyggingu skautahallar í Hafnarfirði. Verksvið starfshópsins verði að skoða mögulega staðsetningu, hönnun og byggingu skautahallar fyrir vetraríþróttafélag Hafnarfjarðar og skautaiðkun fyrir almenning.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir (sign)”
Tillögunni var vísað til íþrótta- og tómstundaráðs og fékk hún þar formlega umfjöllun. Í Hafnarfirði eru stafrækt fáein íþróttafélög og eitt af þeim er Vetraríþróttarfélag Hafnarfjarðar (VÍH). ÍHÍ hefur nú borist tölvupóstur frá formanni þess félags þar sem m.a. segir:
"Í Hafnarfirði er nú starfandi Vetraríþróttafélag Hafnarfjarðar sem er ætlað að halda utan um vetraríþróttir þar með talið skautaíþróttir og eins og segir í lögum félagsins þegar fimm eða fleiri vilja stofna deild sem er með vetraríþróttir á sinni stefnuskrá þá er það hægt. Því vill ég benda á ef Íshokkisambandi Íslands veit um fólk úr Hafnarfirði sem hefur áhuga þá endilega láta það hafa samband við VÍH þar sem við tökum vel á móti því."
Nú vil ég hvetja alla áhugasama íshokkímenn úr Hafnarfirði til að hafa samband við mig á ihi@ihi.is og ég mun koma þeim í samband við Vetraríþróttarfélagið þannig að hægt verði að fara að vinna að framgangi íshokkís í Hafnarfirði.
HH