Fyrsta lotan fór vel af stað og okkar menn voru sterkari í upphafi og sóttu vel og sköpuðu fleiri marktækifæri en gekk illa að nýta færin og þrátt fyrir nokkur „power play“ vildi pökkurinn ekki inn, a.m.k. ekki eins og dómarinn vildi sjá hann. Tvö mörk voru dæmd af okkur, í fyrra skiptið var markið klárlega farið úr stað en í seinna skiptið var ekki annað að sjá en að eitthvað skammhlaup hafi orðið hjá dómaranum. Pétur Maack skoraði að því er virtist magnað mark en dómaranum fannast markið ekki vera rétt stillt og dæmdi markið af.
Okkar menn fóru illa af ráði sínu þegar þeir nýttu sér ekki 46 sekúndna tveggja manna liðsmun, en bættu það upp með marki skömmu eftir að jafnt var orðið í liðum. Þar var á ferðinni Robin Hedström eftir að hann hirtu upp frákast eftir gott skot frá Emil Alengard. Stoðsendingarar voru skráðar á Ingvar Jónsson og Ólaf Björnsson. Ekki urðu mörkin fleiri í lotunni en okkar menn stóðu af sér tvær mínútur einum færri undir lok lotunnar. 1 – 0 eftir fyrstu lotu en hefði átt að vera 2 – 0, en svona getur þetta verið.
Baráttan hélt áfram í 2. lotu og sem fyrr voru okkar menn með undirtökin nær allan tímann með stöku sóknum andfætlinganna sem þó voru aldrei mjög hættulegar. Eftir aðra lotu var staðan í skotum 34 gegn 4 okkur í vil og því um töluverða yfirburði að ræða. Mikið var að koma af skotum frá bláu línunni en lítil traffík fyrir framan markið sem lét markvörð mótherjanna líta óþarflega vel út. Robin Hedström jók forystuna í 2 – 0 um miðbik lotunnar með góðu skoti úr þröngu færi eftir mikla íslenska sókn. Stoðsendingarnar voru skráðar á línufélaga hans Emil og Ólaf Björnsson, en Birkir Árnason hefði örugglega átt að fá skráða á sig sendingu því markið kom í framhaldi skots frá honum.
Þriðja lota hófst með látum og það var enginn annar en Jónas Breki Magnússon sem sett'ann með bakhöndinni eftir að hafa hirt frákast eftir skot frá Birki frá bláu. Rétt undir lok leiksins innsiglaði svo Robin sigurinn og þrennu sína með góðu marki eftir að hafa náð frákasti eftir skot frá Orra Blöndal.
Þetta var góð byrjun á mótinu fyrir Ísland, 4 – 0 sigur í opnunarleik sýnir styrk liðsins en segja má að um skyldusigur hafi verið að ræða. Ísland hefur alltaf unni Nýja Sjáland og með þessum sigri náðist vonandi fyrsta markmið liðsins sem var að halda sér í efri riðli 2.deildar og héðan í frá liggur leiðin ekkert nema uppávið. Vörnin var sterk og Dennis hélt hreinu þó ekki hafi mikið mætt á honum í þessum leik. Skotin enduðu 46 á móti 6.
Á morgun tekur við erfiður leikur gegn Serbíu en hingað til hefur okkur ekki tekist að leggja þá að velli. Á morgun verður hins vegar breyting þar á enda hefur styrkur íslenska liðsins vaxið með hverju árinu og nokkur ár síðan liðin mættust síðast. Það leikur þó engin vafi á því að um hörku leik verður að ræða og strákarnir okkar þurfa á stuðningu úr stúkunni að halda. Áfram Ísland!!
SSS