05.01.2006
Þá er fyrsta leik íslenska landsliðsins lokið hér í Kaunas í Litháen gegn Armeníu. Við gerðum ekki miklar væntingar til mótherja okkar í en þó er ávallt ákveðin óvissa ráðandi þegar kemur að ríkjum gömlu Sovétríkjanna því töluvert er þar um tvöfalt ríkisfang því aldrei að vita hvaðan leikmennirnir koma. Armenarnir létu ekki sjá sig í upphitun fyrir leik og héldu sig þess í stað í búningsklefum þar til rétt fyrir leik. Þegar þeir síðan loksins stigu á ísinn var ljóst að fyrirstaðan yrði ekki mikil því flestir þeirra voru að því er virtist byrjendur á skautum.
Fyrsta íslenska markið kom eftir 10 sekúndur og síðan kom hvert markið á fætur öðru og þegar lokaflautan gall var staðan orðin 50 – 0 sem gerði þetta að stærsta sigri Íslands frá upphafi. Þess má þó geta strákarnir léku ekki að fullum krafti enda gerði þjálfarinn kröfu um gott samspil og þátttöku allra í hverri sókn. Jafnfram var Armenum hlíft við öllum tæklingum enda engan veginn líkamlega tilbúnir fyrir keppni sem þessa.
Það er bæði gott og slæmt að byrja keppni á leik við svona lið. Það er jákvætt að allir fái að spila í fyrsta leik og ná úr sér hrollinum en í liðinu eru t.d. þrír nýliðar þeir Sigurður Árnason, Orri Blöndal og Sæmundur Leifsson sem allir spiluðu mikið í leiknum. Orri Blöndal var síðan valinn maður leiksins í leikslok.
Það getur þó verið erfitt að byrja á svona auðveldum leik því nú þarf að ná liðinu aftur á rétt spor og koma mönnum á ný í rétt hugarástand fyrir komandi átök. Það er erfitt að halda einbeitingu í leik sem þessum en á morgun eigum við leik gegn Tyrkjunum sem við verðum að vinna. Tyrkir töpuðu í gær 16 – 0 gegn Litháen og því má ljóst vera að baráttan verður fyrst og fremst við gestgjafana. Við tökum þó bara einn leik í einu og stefnan er tekin upp úr þessari deild.
Það er mikið verk að taka saman tölulegar upplýsingar úr þessum leik en var leikskýrslan samtals þrjár blaðsíður sem er eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi. Tölurnar verða birtar innan skamms.