14.02.2009
Í gærkvöld léku lið Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur fyrri leik sinn sem fram fer milli liðanna um þessa helgi. Leikurinn endaði með öruggum sigri SA-manna sem skoruðu 11 mörk gegn 4 mörkum gestanna. Greinilegt var strax frá byrjun að SR-ingar söknuðu mikið þeirra Daniel Kolars og Guðmundar Björgvinssonar sem hafa verið fremstir meðal jafningja í vörn liðsins í vetur. Strax í fyrsta leikhluta lentu SR-ingar tveimur mörkum undir en leikhlutinn endaði 4 – 2 SA-mönnum í vil. Í öðrum leikhluta héldu norðanmenn áfram sínu striki og bættu við þremur mörkum gegn einu marki sunnanmanna. Bæði liðin sóttu þó nokkuð jafnt fyrstu tvö leikhlutanna en SA-menn náðu að skapa sér hættulegri færi og uppskáru eftir því. Í þriðja leikhluta héldu heimamenn uppteknum hætti og ef eitthvað var þyngdust sóknarlotur þeirra. Lotan endaði því 4 – 1 og leikurinn eins og áður sagði 11 – 4 SA-mönnum í vil. Liðin leika aftur á morgun í skautahöllinni á Akureyri klukkan 18.00.
Þeir sem eiga ekki heimangengt á leikinn fyrir norðan geta fylgst með netlýsingu á leiknum héðan af síðu Íshokkísambandsins. Hægra meginn á síðunni er tengill sem heitir "Smelltu hér".
Mörk/stoðsendingar SA:
Sigurður S. Sigurðsson 3/0
Stefán Hrafnsson 2/3
Josh Gribben 2/2
Steinar Grettisson 1/2
Rúnar F. Rúnarsson 1/1
Ingvar Þór Jónsson 1/1
Sigurður Óli Árnason 0/3
Andri Sverrisson 0/2
Kópur Guðjónsson 0/1
Orri Blöndal 0/1
Brottvikningar SA: 10 mín.
Mörk/stoðsendingar SR:
Egill Þormóðsson 1/1
Tómas T. Ómarsson 1/0
Steinar Páll Veigarsson 1/0
Hjörtur S Hilmarsson 1/0
Helgi Páll Þórisson 0/1
Brottvikningar SR: 31 mín.
Myndina tók Sigurgeir Haraldsson.
HH