Reglur fyrir Aseta-mót

Reglur fyrir Aseta-mótið hafa verið gefnar út. Þær eru svipaðar og á síðasta móti nema reglur um leikheimildir hafa verið rýmkaðar. Þetta gildir að sjálfsögðu bara um þetta mót.

1. gr.
Allar almennar reglur úr reglubók ÍHÍ gilda um leiki í mótinu nema að annað sé tekið fram.
Stjórn ÍHÍ skal tilnefna mótsstjóra fyrir þetta helgarmót. Mótsstjóri sér um að boða fundi mótsstjórnar og stýrir þeim. Hvert félag sem skráð er til þátttöku skal tilnefna einn fararstjóra í mótsstjórn. Mótsstjórn hefur fullt umboð mótanefndar ÍHÍ og aganefndar ÍHÍ á meðan á mótinu stendur. Þannig hefur mótsstjórnin heimild til þess að bregða út af auglýstri dagskrá og beita leikmenn eða forráðamenn liða refsingum fyrir agabrot. Allar slíkar ákvarðanir skulu samþykktar af einföldum meirihluta mótsstjórnar þar sem hver fulltrúi í mótsstjórn hefur eitt athvæði.
Refsingar og úrskurðir mótsstjórnar skulu ekki ná útfyrir mótið sjálft. Aganefnd ÍHÍ hefur fulla heimild til þess að taka á málum sem koma upp í samræmi við reglugerð um aganefnd ef ástæða er til, hvort sem mótsstjórn hefur úrskurðað eða ekki, og er aganefnd ekki bundin af ákvörðun mótsstjórnar. 
 
2. gr.
Hver leikur er 2 x 20 mínútur og er svellið heflað milli hvers leikhluta. Fimmtán mínútna hálfleikur er tekinn milli leikhluta.
 
3. gr.
Sigurleikur gefur þrjú stig. Verði jafntefli skal hvort lið fá eitt stig en haldinn vítakeppni um þriðja stigið.  Þ
ar fær hvort lið 3 víti. Náist ekki úrslit er háður vítabráðabani.  Hvert lið skal í upphafi móts skila inn lista með 10 vítaskyttum. Komi til vítakeppni skulu vítaskyttur taka vítin eftir þeirri röð sem er á listanum. Verði lið fyrir því að leikmaður sem er á vítalista meiðist er því heimilt að skipta inn nýjum manni á listann. Hafi ekki náðst úrslit að 10 vítum loknum skal byrja aftur á byrjun listans. Það lið sem vinnur vítakeppni skal hreppa aukastigið sem er í boði.
 
4. gr.
Séu lið jöfn að stigum eftir forkeppni gildir markatala en sé hún einnig jöfn gildir markatala í innbyrðis viðureignum. Sé hún einnig jöfn skal fara að reglum um vítakeppni sem getið er um í 3. gr.
 
5. gr.
Leikin skal ein umferð
 
6. gr.
Allir íslenskir leikmenn skulu hafa leikheimild með því liði sem þeir spila með á mótinu. Fari leikmaður fram á að spila með öðru liði en hann hefur leikheimild hjá skal leita samþykkis þess liðs er hann hefur leikheimild hjá. Liðunum er heimilt að hafa erlenda leikmenn í liði sínu án leikheimildar en ber að tilkynna mótsstjóra um hvaða erlendu leikmenn er að ræða.

Myndina tók Ólafur Ragnar Ósvaldsson á Aseta-móti sl. árs.

HH