19.03.2006
Það er óhætt að segja það að leikur íslenska U18 landsliðsins gegn Mexíkó í dag hafi verið ótrúlegur því honum lauk með 1-0 sigri Mexíkóa. Eina mark leiksins var skorað í 1. leikhluta og síðan ekki söguna meir. Okkar menn áttu hvert marktækifærið af öðru en inn vildi pökkurinn ekki. Síðustu 90 sekúndur leiksins spilaði íslenska liðið með 6 útleikmenn (markmaðurinn tekinn af velli) á móti 4 Mexíkóum en allt kom fyrir ekki.
Í 2. lotu skoraði íslenska liðið mark en það var dæmt af þar sem dómarinn hélt að markmaðurinn héldi pekkinnum og flautan gall um leið og pökkurinn fór inn, gríðarlega svekkjandi svo ekki sé meira sagt. Liðið mætti nú í fyrsta skiptið fullskipað til leiks og það var mikil barátta í mönnum enda stefnan sett á sigur. Sjálfsagt hefur flensan setið í einhverjum en allir börðust þeir hetjulega. Þessi markatala er vægast sagt mjög sjaldgæf í íshokkí en markverðir beggja liða voru í aðalhlutverki.
Nú er aðeins einn leikur eftir á mótinu fyrir okkar menn og sá leikur verður gegn Ástralíu. Ástralía kom öllum á óvart með því að vinna Króatíu í upphafi móts en biðu svo lægri hlut gegn Mexíkó. Staðan er þá þannig um úrslitaleik verður að ræða á milli Íslands og Ástralíu um það hvort liðið heldur sér uppi og hvort liðið fellur niður í 3. deild. Vinni okkar menn eru bæði lið með einn sigur út úr mótinu og þar með jöfn í neðsta sæti. Þá ræður úrslitum innbyrðisviðureign liðanna, þannig að nú er að duga eða drepast. Við Íslendingar könnum ágætlega við þessa stöðu og þau eru ekki ófá skiptin sem örlög okkar hafa ráðist í síðasta leik.
Liðin eiga frí á morgun en á þriðjudaginn er komið að lokaátökunum. Liðið skellti sér allt í keilu í kvöld og á morgun er ein æfing en annars er ekki annað á dagskrá en að safna kröftum og gefa allt í úrslitaleikinn. Áfram Ísland!!!