Nýja-Sjáland - Ísland. Úrslit

Nú er nýlokið fyrsta leik íslenska liðsins á HM í Ástralíu. Leikið var gegn Ný-Sjálendingum og hafði Íslenska liðið sigur en það skoraði sex mörk gegn þremur mörkum Ný-Sjálendinga. Lotur fóru 1 - 2, 1 - 3 og 1 - 1. Íslenska liðið komst yfir eftir tæplega sex mínútna leik og var þar að verki Emil Alengaard. Ný-Sjálendingar jöfnuðu rétt eftir miðjan leikhluta og segja má að þar hafi íslenska liðið verið sofandi á verðinum enda Ný-Sjálendingar einum manni færri. Það var svo Daði Örn Heimisson sem kom okkar mönnum yfir aftur þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum og þar við sat í leikhléi. Í öðrum leikhluta náði íslenska liðið að keyra vel á ný-sjalendingana strax í byrjun með power play marki frá Jóni B. Gíslasyni og stuttu seinna bætti Jónas Breki Magnússon öðru marki við. Báðir fengu þeir stoðsendingu úr vörninni þ.e. frá Birki Árna og Ingvari Þór. Enn komu Ný-sjálendingar til baka og staðan því orðin 2 - 4 en áður en leikhlutinn var úti laumaði Steinar Grettisson inn marki eftir stoðsendingu frá Emil Alengaard. Okkar menn því í ágætri stöðu eftir annan leikhluta enda þremur mörkum yfir. Í þriðja leikhluta dró aðeins af mönnum en hann endaði einsog áður sagði með því að bæði lið skoruðu eitt mark. Íslenska liðið varð þó fyrri til og Stefán Hrafnsson setti mark þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum og enn var það Emil Alengaard sem átti stoðsendingu. Ný-sjálendingar náðu að minnka muninn þegar 13 sekúndur voru eftir en öruggur sigur íslenska liðsins var í höfn. Þegar litið er yfir markaskor sést að liðið er að spila jafnan og góðan leik, margir að skora og Dennis Hedström sem stóð í marki íslenska liðsins að gera góða hluti með 90% markvörslu.

Mörk/stoðsendingar Íslands:

Emil Alengaard 1/2
Steinar Grettisson 1/0
Jónas Breki Magnússon 1/0
Jón B. Gíslason 1/0
Stefán Hrafnsson 1/0
Daði Örn Heimisson 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Birkir Árnason 0/1
Robin Hedström 0/1

Brottvikningar Íslands: 18 mín.

Maður leiksins í íslenska liðinu var valinn Robin Hedström.

Ekki er lokum fyrir það skotið að bætast muni við greinina þegar líður á daginn. Einnig má benda á að fararstjórn liðsins heldur úti dagbók hérna.

HH