Northern Iceland Adventure Cup

Um síðustu helgi lauk fyrsta alþjóðlega kvenna íshokkímóti sem haldið hefur verið hér á landi, NIAC eða Northern Iceland Adventure Cup og var skipulagt af kvennanefnd Íshokkísambands Íslands.  Mótið var haldið á Akureyri og auk íslenska landsliðsins tóku þátt tvö erlend lið, annars vegar Hvidovre Wolves frá Danmörku og Malmö Redhawks frá Svíþjóð.  Mótið stóð frá fimmtudegi fram á laugardag og alls voru spilaði 6 leikir.  
 
Danska liðið reyndist sterkasta liðið á mótinu og vann alla sína leiki nokkuð örugglega og fékk aðeins á sig eitt mark á öllu mótinu.  Næst kom sænska liðið en það bar sigur úr býtum gegn íslenska liðinu í tveimur jöfnum og spennandi viðureignum.
 
Í lok móts voru valdir bestu leikmenn liðanna og þeir voru Flosrún Vaka Jóhannesdóttir fyrir Ísland, Kamilla Lund Nielson fyrir Hvidovre og Jessica Wahlström fyrir Malmö.
 
Reynt var að gera mótið sem eftirminnilegast fyrir þátttakendur og var fjölbreytt dagskrá í boði á meðan ekki var verið að spila.  Gestirnir fóru á m.a. á hestbak, á skíði og í sund auk þess sem haldið var í “bláa lónið” í Mývatnssveit.
 
Mótið heppnaðist í alla staði mjög vel og vonandi verður hægt að gera þetta mót að árlegum viðburði. Mót sem þessi eru ómetanleg fyrir okkar leikmenn sem fá allt of sjaldan að spila gegn öðrum liðum, ekki síst nú þegar heimsmeistarakeppnin hefur verið felld niður um stundarsakir.