06.03.2007
Fyrsti leikur Íslands hér í Kína var gegn okkar fornu fjendum Tyrkjum. Það kom þó fljótt í ljós að okkar drengir voru töluvert betri en mótherjarnir og fyrsta markið leit dagsins ljós strax á 3. mínútu leiksins en þá skoraði Andri Mikaelsson sitt fyrsta mark fyrir Íslands hönd í sinni fyrstu skiptingu í sínum fyrsta landsleik, ekki slæm byrjun. Sendinguna á hann átti Ragnar Kristjánsson. Liðið spilaði mjög vel, lét pökkinn ganga og yfirspiluðu Tyrkina á tímabili og mörkin komu í öllum regnbogans litum. Alls urðu mörkin 5 í fyrstu lotunni en Tyrkjum tókst að lauma inn einu marki eftir varnarmistök okkar manna sem var refsað fyrir að vera heldur framsæknir.
Íslenska liðið lenti í töluverðum brottrekstrarvandræðum í upphafi 2. lotu spiluðu í næstum tvær fullar mínútur 3 á 5. Allan þann tíma voru sömu leikmennirnir inná, þeir Kolbeinn Sveinbjarnarson, Orri Blöndal og Sigurður Árnason. Þeir gerðu sér lítið fyrir og héldu Tyrkjum í skefjum þrátt fyrir liðsmuninn. Kolbeinn var mjög öflugur í leiknum, stöðugt ógnandi, skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu.
Okkar mönnum gekk þó illa í upphafi lotunnar að koma skoti á markið en fyrsta mark lotunnar kom í fyrsta skoti liðsins að marki en þar var á ferðinni Hjörtur Björnsson eftir sendingu fá Þorsteini Björnssyni fyrirliða. Egill Þormóðs, Kolbeinn og Róbert Pálsson bættu síðan við þremur mörkum fyrir lok lotunnar og því var staðan orðin 9 – 1 þegar 3. lotan hófst.
Í 3. lotunni léku okkar menn á alls oddi og skoruðu alls 7 mörk án þess að Tyrkir gerðu sig verulega ógnandi. Okkar menn voru fljótari á skautunum, flinkari auk þess sem þeir voru líkamlega sterkari. Vörnin var traust, Róbert Pálsson var mjög traustur og var valinn besti leikmaður íslenska liðsins í leikslok.
Aron Stefánsson stóð í markinu fram í miðja 3. lotu en þá kom Ævar Björnsson inná hans stað í sínum fyrsta landsleik. Ekki reyndi mikið á hann þar sem aðeins eitt skot rataði á markið á meðan hann stóð á milli stanganna.
Í kvöld mætir liðið svo S-Afríku og auðvitað kemur ekkert annað en sigur til greina.
Mörk / stoðsendingar
Kolbeinn Sveinbjarnarson 3/1, Hjörtur Björnsson 3/1, Mattías Sigurðsson 1/3, Þorsteinn Björnsson 1/3, Egill Þormóðsson 3/0, Gunnlaugur Karlsson 0/2, Pétur Maack 2/1, Andi Mikaelsson 1/0, Orri Blöndal 1/0, Róbert Pálsson 1/0, Sigurður Árnason 0/1.
Brottvísanir: 24 mínútur.