Leikur kvöldsins

Leikur kvöldsins er að þessu sinni leikur Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins. Leikurinn er í Laugardalnum og hefst klukkan 20.00. Segja má með nokkrum sanni að nú standi yfir forúrslit fyrir úrslitakeppni. Hvert einasta stig er dýrmætt og stigunum fækkar jafnt og þétt í pottinum.

Lið gestanna, þ.e. Bjarnarins, hefur að undanförnu verið á ágætis flugi á meðan SR-ingar hafa átt erfiðari tíma. Af síðustu fimm leikjum hafa Bjarnarmenn unnið fjóra og tapað einum en sá leikur tapaðist á gullmarki um síðustu helgi. Eins og fram kom hér í grein í gær hefur Bjarnarmönnum tekist að bæta varnarleik og markvörslu töluvert sem þýðir að sjálfsögðu að liðið þarf að skora færri mörk til að sigra. Inn í lið Bjarnarmanna í kvöld koma þeir Matthías S. Sigurðsson og Sigursteinn Atli Sighvatsson eftir að hafa tekið út leikbann í síðasta leik.

Á meðan Bjarnarliðið hefur verið á sigurgöngu hafa SR-ingar átt á brattann að sækja. Af síðustu fimm leikjum þeirra hafa þeir tapað fjórum, þar af einum á gullmarki, en unnið einn. Það er árangur sem þeir SR-ingar eru sjálfsagt ekki sáttir við og ætla sér að breyta í kvöld. Arnþór Bjarnason kemur til leiks í kvöld eftir meiðsli en frá eru Gunnlaugur Karlsson og Daníel Freyr Jóhannsson vegna veikinda. Við birtum í síðustu viku fimm stigahæðstu menn SA og Bjarnarins eftir tólf umferðir. Hér er listinn yfir fimm stigahæðstu menn SR-inga:

Gauti Þormóðsson      30 (13) 
Daniel Kolar              25 (13)
Arnþór Bjarnason       13 (7)
Steinar P. Veigarsson 12 (12)
Svavar Rúnarsson       8 (11)

En á endanum er það frammistaða leikmanna liðanna í kvöld sem telur. Góða skemmtun.

Myndina tók Ómar Þór Edvardsson

HH