03.12.2008
Í kvöld leika í Skautahöllinni í Laugardal lið Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins og hefst leikurinn klukkan 19.00. Síðasti leikur liðanna er sjálfsagt leikur sem SR-ingar vilja gleyma sem fyrst öfugt við Bjarnarmenn sem vildu sjálfsagt endurtaka hann sem fyrst því sá leikur endaði 11 - 5 Birninum í vil. Langt jólafrí er framundan hjá leikmönnum í meistaraflokki karla. Gert var ráð fyrir að á þessum tíma yrðu margir liðsmenn úr þessum liðum á leið til Norður-Kóreu til að spila í U20 Heimsmeistarakeppni en þátttaka liðsins var dregin til baka. Bæði lið vilja að sjálfsögðu fara inn í jólafríið með sigur á bakinu og verður því sjálfsagt hart barist á svellinu í kvöld. Heyrst hefur að markmaður Bjarnarmanna, Dennis Hedström, hafi lokið skólavist sinni hér í bili og stefni heim til Svíþjóðar fljótlega. Það er því síðasta tækifæri fyrir hokkíáhugamenn að sjá hann spila hér á landi í bili og um að gera að nýta sér það. Ekki er annað vitað en að allir séu heilir í báðum liðum og því ættu þjálfarar að geta still upp sínum sterkustu liðum.
Myndina tók Ómar Þór Edvardsson
HH