21.03.2007
Þeir sem virkilega eru farnir að sakna þess að horfa á íshokkí, hér á höfuðborgarsvæðinu, fá óskir sínar uppfylltar í kvöld. Í Laugardalnum mætast lið SR-inga og Bjarnarins í meistaraflokki karla og hefst leikurinn klukkan 20.30. Eins og staðan er í deildinni sigla SR-ingar þokkalega lygnum sjó í efsta sætinu, fjórum stigum á undan norðanmönnum. Það gæti hinsvegar breyst nokkuð ef Bjarnarmenn ná að landa sigri í kvöld. Bjarnarmenn hinsvegar geta með sigri í kvöld, enn haldið í vonina með að ná í úrslitakeppnina, til þess þurfa úrslit annarra leikja en þeirra eigin þó að vera hagstæð. Yngri leikmenn beggja liða eru fyrir stuttu komnir úr langferð, með U18 liði Íslands, til Kína og vonandi hefur í þeirri ferð bæst í reynslubankann hjá þeim sem við fáum að verða vitni að í kvöld. Ekki hef ég heyrt að nein meiðsli hrjái liðin þannig að nú er bara að mæta í Laugardalinn og skemmta sér. Ekki gleyma góða skapinu og jákvæðum hrópum.
HH