Leikir helgarinnar. - Víðbót

Leikir helgarinnar eru leikir Skautafélags Akureyrar og Bjarnarins í meistaraflokki karla, leikið er í kvöld, föstudag og á morgun laugardag og fara leikirnir fram í Skautahöllinni á Akureyri. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 22:00 en leikurinn á morgun klukkan 18:00. Akureyringar munu leggja allt kapp á að vinna þessa leiki og treysta stöðu sína á toppnum enda eiga þeir tvo leiki um næstu helgi gegn íslandsmeisturum SR. Enn er nóg af stigum í pottinum fyrir Bjarnarmenn og því engin ástæða fyrir þá að leggja árar í bát. Vitað er að Lauri Iso-Antilla er meiddur og er þar skarð fyrir skildi í vörn Bjarnarmanna en maður kemur í manns stað. Þegar þetta er skrifað er færðin til Akureyrar með leiðinlegra móti, leikirnir eru samt enn á dagskrá en fylgst verður með færð og uppúr klukkan þrjú eftir hádegi ætti að liggja fyrir hvort af leikjunum verður.

Nú um klukkan 15.00 voru Bjarnarmenn að leggja af stað norður enda veðurútlit orðið skaplegra. Leikurinn ætti því að vera í kvöld einsog hafði verið gefið út.

HH