Leikir helgarinnar

Mekka íshokkís á Íslandi verður á Akureyri um komandi helgi. Reyndar halda Akureyringar því fram að Mekka íshokkís sé alltaf á Akureyri og í tilefni dagsins er alveg sjálfsagt að leyfa þeim það :) Fyrst er að telja að svokallað Bautamót verður haldið fyrir norðan á laugardag og sunnudag, en þar leiða saman hesta sína krakkar úr 4. flokki, bæði a og b liðum. Þetta er annað mótið af þremur sem haldið er í þessum aldursflokki og ennþá eiga öll liðin möguleika á tiltlinum. Dagskrá mótsins má sjá hér og stöðuna í þessum aldursflokki má sjá á forsíðunni hjá okkur. Á laugardagskvöldinu klukkan 20.00 fer síðan fram stórleikur í meistaraflokki karla þegar SA og SR keppa í meistaraflokki karla. Í byrjun móts leit út fyrir að SR-ingar myndu sigla í gegnum Íslandsmótið á nokkuð öruggan og þægilegan hátt en í síðustu leikjum hafa SA-menn sýnt að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin. Þeir hafa náð toppsætinu af SR-ingum auk þess að eiga leik til góða. Tveir leikmenn hafa horfið á braut, annarsvegar SR-ingurinn Gauti Þormóðsson sem hélt til Svíþjóðar og hinsvegar SA-maðurinn Jón Ingi Hallgrímsson sem leikur nú í Danmörku. U-18 ára liðið verður síðan í landsliðsæfingabúðum fyrir norðan en að þessu sinni hefur 30 manna hópur verið boðaður til æfinga. Síðan en ekki síst heldur Skautafélag Akureyrar upp á 70 ára afmæli sitt um helgina og á laugardeginum verður hátíðardagskrá á þeirra vegum. Fyrir hönd stjórnar ÍHÍ vil ég óska Skautafélagi Akureyrar til hamingju með daginn og óska þeim alls hins besta í framtíðinni. Góða íshokkíhelgi öllsömul og farið varlega.

HH