Nú þegar haustþingi Alþjóða íshokkísambandsins er lokið liggur ljóst fyrir um dagsetningar á HM-mótum þeim er íslendingar taka þátt í.
Uppi voru hugmyndir um að færa mót U-18 ára liðsins bæði um stað og tíma en þegar á reyndi voru þáttökuþjóðirnar ekki sammála og fyrri tillagan var látin standa. Mótið verður því haldið í
Narva í Eistlandi um miðjan mars en undirbúningur liðsins mun hefjast fljótlega undir stjórn Sergeis Zak.
U-20 mótið mun verða í
Istanbul strax eftir áramótin en smá vandræði hafa verið með uppsetningu mótsins þar sem liðin í riðlinum verða sjö að þessu sinni. Það þýðir að frídagar verða færri og þéttar leikið en reynt er að jafna því sem best niður á öll liðin.
Karlalandsliðið heldur svo til
Tallinn í Eistlandi í apríl. Þess má geta að nú er unnið að tölfræði vinnslu úr fyrri keppnum, þ.e. hversu margar mínútur einstaka leikmenn fá í refsingar og um hverskonar refsingar er að ræða. Þar kemur margt athyglisvert í ljós en ekki hefur verið ákveðið hvort efnið verður birt. Farið verður 3 - 4 keppnir aftur í tímann varðandi vinnslu þessa.
Þess má svo að lokum geta að stjórn ÍHÍ ákvað á síðasta fundi sínum að Johann Björnfot yrði Richard Tahtinen til aðstoðar við þjálfun karlalandsliðsins. Johann var liðinu til aðstoðar á síðasta móti og þótti sinna starfi sínu með miklum ágætum. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort önnur landslið verði með aðstoðarþjálfara en unnið er í málinu.
HH