17.12.2005
Rétt í þessu var leik SA og Bjarnarins að ljúka í kvennaflokki. Leikurinn var mjög jafn og spennandi frá upphafi til enda og mikil barátta hjá báðum liðum. Björninn reið á vaðið og skoraði fyrsta mark leiksins strax í fyrstu lotu og varð það eina mark lotunnar. Björninn jók svo forskot sitt snemma í 2. lotu í 2 - 0 en þá kom SA með tvö mörk í röð og eftir lotuna var staðan orðin jöfn 2 - 2.
SA hélt áfram að skora í 3. lotu og komst í 4 - 2 áður en Björninn svaraði fyrir sig og breytti stöðunni í 4 - 3. Björninn gerði harða atlögu að marki SA á síðustu mínútunum á meðan SA lenti í miklum brottrekstrarvandræðum en á meðan mest var voru 4 leikmenn SA í refsiboxinu í einu. Þeim tókst engu að síður að verjast til leiksloka og tryggja sér sigurinn. Lokastaðan 4 - 3 og loturnar fóru 0-1, 2-1 og 2-1.