Eins og kom fram í síðustu frétt er karlalandsliðið komið til Ástralíu eftir um 40 klukkustunda ferðalag. Þetta er ekki í fyrsta sinni sem landsliðið ferðast um langan veg, en það hefur m.a. farið til Suður - Afríku (1999), Mexíkó (2002 og 2005) og á síðasta ári var farið til Seoul í Suður-Kóreu. Þjálfari liðsins er Sveinn Björnsson en hann er núverandi aðal þjálfari hjá Skautafélagi Akureyrar, sem hann spilaði með árum saman áður en hann lagði skautana á hilluna. Spennandi verður að sjá hvernig Sveini eða Denna, en undir því þekkja flestir íhokkímenn hann, gengur sem aðalþjálfara liðsins. Þetta er í fyrsta sem íslendingur þjálfar liðið og sýnir að reynslan er smátt og smátt að koma hjá íslendingum hvað varðar þjálfun í íþróttinni. Honum til aðstoðar er Richard Eiríkur Tahtinen (hálf íslenskur) og hefur hann verið að þjálfa hjá Malmö Redhawsk undanfarin misseri við góðan orðstír.
Liðið mun staldra við í Sydney í þrjá daga bæði til að jafna sig eftir erfitt ferðalag en einnig til að æfa aðeins saman og leika æfingaleik, áður en haldið verður til Newcastle þar sem mótið fer fram. Þar leikur liðið sinn fyrsta leik á mánudaginn gegn Ný-Sjálendingum klukkan 16.30 að staðartíma en þá er klukkan 06:30 hér heima á Íslandi.
Andstæðingar Íslands í þessu móti verða fyrrnefnt lið frá Nýja Sjálandi, Ástralía, Mexíkó, Kína og Spánn. Allar þessar þjóðir hafa sterku liði á að skipa og verður án efa spennandi að fylgjast með þessu móti næstu daga. Væntingar eru settar á að Ísland haldi sér í deildinni og ef vel gengur þá gæti Ísland átt möguleika á verðlaunasæti. Við bendum á að eins og í öðrum ferðum er haldið úti dagbók á tengli þess liðs sem er á ferðalagi. Tengillinn er
Karlalandslið hérna vinstra meginn á síðunni.
HH