Hart tekist á í leiknum í gær Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Jötnar og Skautafélag Reykjvíkur léku á íslandmótinu í íshokkí í gærkvöld og fór leikurinn fram á Akureyri. Leiknum lauk með sigri Jötna sem gerðu 8 mörk gegn 7 mörkum SR-inga eftir að jafnt hafði verið 7 – 7 að loknum venjulegum leiktíma.
Tóninn hvað markaskorun varðaði var gefinn snemma í leiknum því strax á annarri mínútu kom fyrsta markið en það gerði Snorri Sigurbjörnsson fyrir SR-inga. Adam var þó ekki lengi í Paradís því Sigurður Sigurðsson jafnaði metin fyrir Jötna skömmu síðar og áður en lotunni lauk höfðu Jötnar bætt við tveimur mörkum og staðan því 3 – 1 þeim í vil.
Mörkin héldu áfram að hrannast inn í annarri lotu en í henni gerðu liðin sitthvor þrjú mörkin. Jötnar höfðu þó alltaf frumkvæðið hvað markaskoruna varðaði og um miðja lotuna höfðu þeir náð 6 – 2 forystu en SR-ingar minnkuðu muninn í 6 – 4 fyrir lotulok.
Þriðja lotan var síðan æsispennandi því SR-ingar minnkuðu muninn fljótlega í eitt mark. Jötnar svöruðu fyrir sig mjög fljótlega en það voru SR-ingar sem áttu tvö síðustu mörkin en jöfnunarmark SR-inga átti Pétur Maack. Þetta var fyrsti leikur Péturs með SR-ingum en hann hefur leikið í Svíþjóð það sem af er vetri.
Í framlengingunni var það síðan Sigurður Sigurðsson sem tryggði Jötnum aukastigið sem í boði var en Sigurður hafði fyrr í leiknum þurft að yfirgefa ísinn vegna meiðsla.
Mörk/stoðsendingar Jötnar:
Sigurður Sigurðsson 2/1
Lars Foder 2/1
Andri Mikaelsson 2/0
Guðmundur Guðmundsson 1/1
Ingvar Jónsson 1/0
Sigmundur Sveinsson 0/2
Refsingar Jötnar: 16 mínútur
Mörk/stoðsendingar SR:
Egill Þormóðsson 2/1
Björn Róbert Sigurðarson 2/0
Snorri Sigurbjörnsson 1/2
Pétur Maack 1/2
Kristján Gunnlaugsson 1/1
Daniel Kolar 0/2
Gauti Þormóðsson 0/1
Tómas Tjörvi Ómarsson 0/1
Refsingar SR: 37 mínútur.