24.04.2006
Gríðarleg taugaspenna var í Skautahöllinni í Laugardal þegar íslenska landsliðið mætti Luxemburg í kvöld. Íslenska liðið var mikið mun sterkara og sýndi oft á tíðum glæsilegt samspil, en frábær markvarsla Welter Michel í marki Luxemburg kom íslenska liðinu í opna skjöldu og lengi leit út fyrir að íslensku strákarnir ættu ekkert í pokahorninu til þess að koma pekkinum framhjá markverði Luxemburg. En svo bregðast krosstré sem önnur og að lokum uppskáru okkar menn sætan sigur. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 0 – 0, Luxemburg hafði náð að skjóta 7 sinnum á mark okkar manna en okkar menn náðu 22 skotum á mark Luxemburgara, yfirburðir okkar manna á ísnum voru algerir en markvörður Luxemburg hélt þeim inn í leiknum með markvörslu á heimsmælikvarða.
Einungis voru liðnar 48 sekúndur af 2. leikhluta þegar Luxemburg skoraði fyrsta mark leiksins. Það var Robert Beran sem að náði að skauta í gegnum íslenska liðið og skoraði glæsilegt mark án stoðsendingar. Óvænt og algerlega gegn gangi leiksins. Á 24 mínútu skoraði síðan Daniel Eriksson mark fyrir ísland eftir stoðsendingu frá Stefáni Hrafnssyni. Brynjar Freyr Þórðarson bætti síðan við öðru marki Íslands á 34. mínútu eftir stoðsendingar frá Jónasi Breka Magnússyni og Guðmundi Björgvinssyni. Markið var mjög glæsilegt, bakhandarskot upp í markvinkilinn eftir að Brynjar hafði lagt markmann Lux á hnén. Á 37. mínútu náðu Luxemborgarar að jafna leikinn þegar Francois Schons skoraði með þrumu skoti langt utan úr teig en Birgir Örn Sveinsson markvörður Íslands var skyggður þannig að hann átti í erfiðleikum með að sjá skotið. 2 – 2 var því staðan eftir 2. leikhluta.
Allt var í járnum þegar að 3. leikhluti hófst, stórsóknum íslenska liðsins var sífellt hrundið af markverði Luxemburg og veruleg taugaspenna var að gera vart við sig bæði hjá leikmönnum og ekki síst hjá áhorfendum. Á 55 mínútu leiksins þegar Íslenska liði lék 4 gegn 5 leikmönnum Luxemburg tók Emil Allengard leikmaður íslands til sinna ráða og einlék í gegnum lið Luxemburg og skoraði gríðarleg þýðingar mikið mark fyrir liðið. Við komnir yfir og einungis rúmlega 4 mínútur eftir af leiktímanum. Þá var komið að Gauta Þormóðssyni sem eftir stoðsendingu frá Jóni Inga Hallgrímssyni stakk sér inn fyrir vörn Luxara og setti glæsilegt mark upp í þaknetið fram hjá markverði Luxemburg. En þeir voru ekki hættir okkar menn og þegar tæplega 30 sekúndur voru eftir á leiknum átti Gauti annað mark sem að var ávöxtur frábærs samspils, Björn Már Jakobsson átti stoðsendingu á Rúnar Rúnarsson sem að var í markfæri og lagði niður markvörð Luxemburg en í stað þess að skjóta á markið sendi hann síðan aðra stoðsendingu á Gauta Þormóðsson sem að gulltryggði glæstan sigur Íslands 5 – 2.
Íslenska liði var miklu mun sterkara en andstæðingurinn allan leikinn og yfirspilaði þá oft. Markvörður Lux, Welter Michel var algerlega frábær og var þar til á lokamínútum leiksins eins og Berlínarmúrinn á kaldastríðstímanum ókleyfur.
Besti maður íslands að leik loknum var útnefndur Brynjar Freyr Þórðarson og besti maður leiksins hjá Luxemburg var Welter Michel markvörður.
Leikurinn í tölum:
Mörk / stoðsendingar fyrir Ísland: #11 Gauti Þormóðsson 2/0, #21 Emil Allengard 1/0, #15 Brynjar Freyr Þórðarson 1/0, #6 Daníel Eriksson 1/0, #12 Stefán Hrafnsson 0/1, #7 Jónas Brek Magnússon 0/1, #8 Guðmundur Björgvinsson 0/1, #Jón Ingi Hallgrímsson 0/1, #24 Björn Már Jakobsson 0/1.
Mörk og stoðsendingar fyrir Luxemburg: #11 Robert Beran 1/0, #12 Francois Schons 1/0, #5 Georges Scheier 0/1.
Skot á mark Ísland: 51 (22)(18)(11) sem að gáfu 5 mörk.
Skot á mark Luxemburg: 17 (7)(5)(5) sem að gáfu 2 mörk.