12.04.2009
Leikur Íslands og Serbíu sem leikinn var í gær endaði með sigri heimamanna sem gerðu sex mörk gegn einu marki íslendinga. Stórslys þarf til að serbarnir tryggi sér ekki sæti í 1. deild að ári en þeir eiga eftir að leika við N-Kóreu sem hingað til hefur tapað öllum leikjum sínum á mótinu. En aftur að leiknum sem var hin ágætasta skemmtun. Íslenska liðið stól lengi vel upp í hárinu á serbunum og segja má að tveir örstuttir kaflar undir lok fyrstu og síðustu lotu hafi verið vendipunktar leiksins. Serbarnir náðu forystunni þegar 15 mínútur voru liðnar af leiknum og höfðu reyndar fram að því verið heldur sókndjarfari. Íslenska liðið náði hinsvegar að halda sér inn í leiknum vel lengi fram eftir lotunni og það var ekki fyrr en um ein mínúta lifði af henni sem Serbarnir bættu við tveimur mörkum á örskömmum tíma. Gaman hefði verið að sjá íslenska liðið fara einungis marki undir í hléi því pirraðir serbar eru oftast sjálfum sér verstir. Staðan því 0 – 3 eftir fyrstu lotu. Þegar rúmlega sjö mínútur voru liðnar af annarri lotu minnkaði Robin Hedström muninn fyrir íslendinga. Íslenska liðið var á þeim tíma einum manni fleiri inn á vellinum og stoðsendingar í markinu áttu Emil Alengaard og Gauti Þormóðsson. Því miður náði íslenska liðið ekki að halda því strax í næstu sókn á eftir juku serbarnir aftur muninn og þannig lauk lotunni með jafntefli, þ.e. 1 – 1 og staðan í leiknum því 1 – 4. Síðasta lotan var svipuð hinum tveimur, íslenska liðið átti góða kafla lengi fram eftir lotunni en undir lokin bættu serbarnir við tveimur mörkum og staðan því orðin 1 – 6 og þannig voru lokatölur leiksins einsog áður sagði.
Dennis Hedström var valinn maður leiksins úr íslenska liðinu og stúkan sem að sjálfsögðu var öll á bandi heimamanna sá ástæðu til að gefa honum gott klapp fyrir frammistöðuna.
Aðeins er farið að kvarnast úr íslenska liðinu. Sigurður Óli Árnason hefur verið meiddur allan tímann og í gær bættust á listann Steinar Grettisson og Sigurður S. Sigurðsson.
Íslenska liðið leikur á morgun gegn liðið Ísrael og ekkert annað en sigur kemur til greina. Leikurinn hefst klukkan 17.00 að staðartíma eða klukkan 15.00 að íslenskum tíma.
Myndina tók Pétur Maack
HH