Ísland náði stigi af Kínverjum

Það voru stórveldin Ísland og Kína sem mættust hér í Skautahöllinni í Newcastle í Ástralíu í dag kl. 13:00 að staðartíma, eða kl. 03:00 að nóttu að íslenskum tíma.  Kína kom í þennan riðil „rankað“ hæst eftir að hafa fallið niður úr 1. deild í fyrra en Íslandi er raðað í 4.  sæti.  Þessi tvö lið hafa aðeins einu sinni mæst áður og það var í Búlgaríu 2004 en þá unnu Kínverjar 4-0.
 
Íslenska landsliðið var þó hvergi bangið er það steig á ísinn hér í dag enda kom það á daginn að krafturinn í okkar mönnum kom þeim asísku í opna skjöldu.  Því var haldið fram eftir leikinn við Nýja Sjáland að íslenska liðið hefði þar spilað sinn besta leik frá upphafi, og það má vel vera, en í dag spilaði liðið jafnvel betur gegn miklu erfiðari andstæðingum.   Liðið varð engu að síður fyrir mikilli blóðtöku í upphafi leiks þegar varnarjaxlinn Birkir Árnason heltist úr lestinni en svo virðist sem hann hafði tognað á hnéi í síðasta leik.  Hann tók þátt í upphitun en lengra komst hann ekki.
 
Fyrirfram héldu flestir hér í Newcastle að um leik kattarins að músinni væri að ræða, en það voru hins vegar Íslendingar sem opnuðu markareikninginn þegar vel var liðið á fyrstu lotuna, þegar Robin Hedström læddist aftur fyrir vörn Kínverjanna, fékk magnaða stungusendingu frá Emil Alengard á bláu línunni og stakk sér inn að marki og kom Íslandi í 1 – 0.  Kínverjarnir voru þó fljótir að koma til baka og refsuðu grimmilega fyrir varnarmistök og skoruðu tvö mörk með skömmu millibili.  Annað markið kom reyndar þegar við vorum tveimur leikmönnum færri og lítið við því að gera.  Staðan var því 2 – 1 eftir 1. lotu.
 
Í 2. lotu var mikill hasar, hart barist og nokkrar verulega harðartæklingar á báða bóga sem fengu áhorfendur til að súpa hveljur.  Bæði lið náðu að skora sitt hvort markið og aftur var það  Robin sem skoraði eftir sendingu frá Emil og með þessu marki jafnaði Ísland metin en Kínverjarnir náðu aftur forystunni og héldu 3 – 2 stöðu fyrir 3. og síðustu lotuna. 
 
Í 3. lotu var látið sverfa til stáls.  Fyrir hverja tæklingu sem Kínverjar gáfu Íslendingum, gáfu Íslendingar þeim tvær til baka.  Robin jafnaði leikinn og fullkomnaði þrennuna sína eftir frábæran undirbúning frá Emil Alengar, sem gaf „drop sendingu“ í teiknum sem Robin lét ekki fram hjá sér fara.  Skömmu síðar náðu Kínverjar aftur forystunni, en það var svo Birgir Hansen sem skoraði fallegt mark eftir sendingu frá Jónasi Breka Magnússyni og jafnaði þar með leikinn.
 
Síðustu mínúturnar var allt á suðupunkti og okkar menn sterkari aðilinn ef eitthvað var og einbeitingin skein úr hverju andliti.  Hvorugu liðinu tókst að skora og því var staðan 4 – 4 og við það jafntefli hlýtur hvort lið eitt stig.
 
En leiknum var ekki lokið þar sem gripið var til framlengingar þar sem spilaður er einu sinni 5 mínútna bráðabani, með 4 útileikmenn í hvoru liði.  Kínverjar höfðu fengið 4ra mínútna brottvísun skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma og því nutum við þess forskots að spila 4 á 3 fyrstu mínútur framlengingar.  Fljótlega í framlengingunni slapp einn Kínverjinn í gegn einn á móti fyrirliðanum Ingvari Jónssyni sem lét hann ekki fara fram hjá sér en setti boðflennuna í svæðinu á herðablöðin, en fékk dæmda á sig tveggja mínútna brottvísun fyrir hindrun. 

Gríðarleg spenna og mikil barátta einkenndi það sem eftir lifði leiks en hvorugu liðinu tókst að skora og því var komið að vítakeppni.  Hvort lið má tefla fram þremur vítaskyttum og fyrir Ísland fóru Robin Hedström, Stefán Hrafnsson og Emil Alengard.  Engum þeirra tókst að skora en ekki heldur Kínverjunum og því þurfti að fara í bráðabana.  Fyrsta vítið tóku Kínverjar og tókst að skora.  Þá var mikil pressa á okkar næstu vítaskyttu sem var Robin, en honum tókst ekki að skora og því kræktu Kínverjar í auka stigið.   Í lok leiks var Dennis Hedström markvörður kjörinn besti leikmaður íslenska liðsins.
 
Þrátt fyrir þennan hálfa ósigur þá eiga leikmenn íslenska liðsins heiður skilinn fyrir frábæra frammistöðu.  Þeir komu öllum á óvörum og stríddu stórveldinu sem má prísa sig sælt að hafa ekki tapað leiknum.   Það sýnir jafnframt styrk liðsins að lenda þrisvar sinnum undir og koma alltaf sterkari til baka.  Nú þurfa menn hins vegar að hvílast fyrir frekari átök því strax á morgun verður erfið viðureign gegn Spánverjum.