14.01.2005
Því miður var það þannig að okkar menn áttu ekkert svar við sterku liði Mexíkó. Leikurinn fór vel á stað hjá okkur og eftir innan við mínútu vorum við búnir að ná forskoti 1-0 með glæsilegu marki Gunnars Guðmundssonar sem var að skora sitt fyrsta mark í alþjóðlegri keppni, en Adam var ekki lengi í paradís því að áður en fyrsti leikhluti var úti var staðan orðin 1-5 fyrir Mexíkó.
Drengirnir okkar voru nú ekki að spila sinn besta leik og var þeim refsað grimmilega fyrir þau mistök sem að þeir gerðu. Skautahöllin hér í Mexíkó borg var smekk full 4500 manns sem að hvöttu heimamenn óspart og létu vel í sér heyra. Annar leikhluti fór 2-3 fyrir Mexíkó og sá þriðji 2-1 þannig að úrslit leiksins voru 4-10 Mexíkó í vil. Þrátt fyrir að okkar drengir hefðu ekki verið að spila sinn besta leik var fljótt ljóst að við ofurefli var að etja Mexíkanska liðið var einfaldlega bara betra í dag, allir leikmenn hefðu þurft að eiga topp leik ef að við hefðum átt að eiga séns.
Mörk Íslands skoruðu þeir Gunnar Guðmundsson, Gauti Þormóðsson, Daníel Eriksson og Sindri Már Björnsson. Steinar Páll Veigarsson var kjörinn besti maður íslenska liðsins í leikslok og fékk að launum fallegan platta frá Mexíkanska íshokkísambandinu. (sjá mynd)
Liðið á frídag á morgun og leikur síðan við Nýja Sjáland á laugardag og Suður Afríku á sunnudag.