12.06.2005
Í gær laugardaginn 11. júní var haldið fyrsta Íshokkíþing Íshokkísambandsins. Þinghaldið gékk vel þar til kom að kosningu í stjórn sambandsins þá varð einkennileg uppákoma.
Búið var að kjósa formann sambandsins og komið var að kosningu 4 stjórnarmanna til viðbótar. 9 aðilar gáfu kost á sér í þessi fjögur sæti. Formaður Bjarnarins Magnús Jónasson fór fram á það að kosningarnar yrðu listakosningar en slíkt er með öllu óheimilt í íþróttahreyfingunni. Það er grundvallar atriði í allri íþróttahreyfingunni að þar eru alltaf einstaklingskosningar, allir hafa rétt á því að bjóða sig fram og síðan er kosið á milli þeirra einstaklinga sem í framboði eru og þeir sem flest athvæði hljóta út úr pottinum eru réttkjörnir.
Þingforseti ákvað að bera tillögu Magnúsar um listakosningar undir þingið þar sem hún var felld með miklum meirihluta. Þá bað Magnús um 5 mínútna þinghlé til þess að ráðfæra sig við sitt fólk, þingforseti varð við þeirri ósk. Skömmu síðar gékk Magnús í pontu og sakaði menn þar um óheilindi og ódrengskap og tilkynnti að allir þingfulltrúar Bjarnarins mundu ganga af fundi og draga framboð sín til baka, sem síðan því miður varð raunin. Það var sorglegt að horfa upp á þennan hóp fylgja í blindni formanni sínum út, af því að tillaga hans um ólöglegt form kosninga náði ekki fram að ganga.
Það er vægast sagt skrýtin framkoma að ásaka aðra þingfulltrúa um óheilindi og rjúka á dyr áður en kosið var, þingheimur hafði ekki kosið og ekki lýst vilja sínum á einn eða neinn hátt. Í framboði fyrir Björninn voru 3 frambærilegir menn sem eflaust hefðu einhverjir náð kosningu.
Í nýrri stjórn Íshokkísambands Íslands til næstu 2 ára eru:
Viðar Garðarsson formaður
Bjarni Bjarnason
Bjarni Gautason
Margrét Ólafsdóttir
Sigurður Sigurðsson
Í varastjórn voru kjörin í þessari röð:
Birna Björnsdóttir
Héðinn Björnsson
Hallgrímur Ingólfsson