20.12.2005
ÍHÍ hefur útnefnt íshokkímann og konu ársins 2005.
Íshokkímaður ársins 2005
Jón Benedikt Gíslason er 22 ára gamall og spilar um þessar mundir með hinu alþjóðlega liði Nordic Vikings í Asíudeildinni. Þar sem leikið er til skiptis í Japan, Kóreu og Kína. Jón lék lykilhlutverk í landsliði Íslands sem þátt tók í heimsmeistarakeppni Alþjóða íshokkísambandsins 2. deild í Belgrad síðasta vor. Jón spilaði í Arhus í Danmörku á síðasta tímabili og lék jafnframt með Íslandsmeisturum Skautafélags Akureyrar í úrslitakeppninni í apríl. Jón er mikill íþróttamaður og góð fyrirmynd yngri leikmanna. Hann er án ef einn besti íshokkíleikmaður sem við eigum í dag og fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í íþróttinni.
Íshokkikona ársins 2005
Birna Baldursdóttir er 25 ára gömul og spilar með Skautafélagi Akureyrar. Birna er ein af máttárstólpum og fyrirliði hins sigursæla SA liðs sem unnið hefur Íslandsmeistaratitilinn síðustu 5 árin. Hún var einnig í fyrsta kvennalandsliði Íslands sem keppti á Heimsmeistaramóti Alþjóða íshokkísambandsins í Nýja Sjálandi síðasta vor. Birna er framúrskarandi íþróttamaður, drífandi og duglegur leikmaður, góð fyrirmynd og verðugur fulltrúi íþróttarinnar.
Báðir þessir leikmenn munu hljóta sérstaka viðurkenningu í hófi milli jóla og nýárs sem haldið er af ÍSÍ. Stjórn ÍHÍ og hokkífólk allt vill óska þessum frábæru íþróttamönnum til hamingju.