20.03.2004
Í gærkvöldi lék Ísland við Íra á HM í Laugardalnum en þess leikur kom í kjölfarið á stórsigri á Armennum kvöldið áður. Írar höfðu áður sýnt ágætisleik á móti Mexíkó og því var ástæða fyrir okkar menn að vanmeta þá ekki. Fyrsta lota hófst ágætlega, Ísland sótti látlaust en Írarnir vörðust þó vel. Það var ekki fyrr en á 5. mín að Ingvar Jónsson braut ísinn með langskoti. Nú héldu flestir að þetta myndi duga til að brjóta Írana niður enda fylgdi í kjölfarið stöðugar sóknir. Svo fór þó ekki. Írar, í einni af sínum fáu sóknum í fyrstu lotu, fengu mark á silfurfati eftir skelfileg mistök í vörninni. Staðan 1 - 1 og hélst svo til enda lotunnar. Fór nú að fara um margan enda bjuggust áhorfendur við góðum sigri á Írum, en ekki jöfnum leik. En það var ástæðulaust. Inn í aðra lotu kom gjörbreytt lið Íslendinga, kraftmikið og sprengfullt af sjálfstrausti. Clark McCormick skoraði á 6. mín og í kjölfarið kom mark frá Jónasi Breka Magnússyni eftir stórglæsilegt einstaklingsframtak. Þá var eins og Írarnir gæfust upp og Ísland tók öll völd á ísnum. Sigurður Sigurðsson kom Íslandi í 4-1 eftir glæsilegt spil við Rúnar, sem vann sína vinnu fyrir aftan markið. Þetta mark mátti rekja til hinnar þekktu samvinnu þeirra úr norðri. Síðan kom Ágúst Ásgrímsson askvaðandi í hraðaupphlaupi og skoraði snyrtilega fram hjá markamanni Íranna. Clark bætti svo sjötta markinu við og Jónas Breki rak svo endahnútinn á aðra lotu með góðu marki eftir sendingu frá Daða Heimissyni. Þriðji leikhluti var langt í frá eins skemmtilegur fyrir okkur Íslendinga. Írar virtust geta komist upp með ansi mikið af brotum á sama tíma og Íslendingar voru tíndir út af í löngum bunum. Þetta hafði áhrif á leik okkar manna, flæðið stíflaðist og leikurinn var lítið fyrir augað. En okkar menn héldu haus, létu ekki brotin og brotabrotin fara í taugarnar á sér. Ekkert mark var skorað í þessari lotu og leikurinn endaði því 7 - 1 fyrir Ísland. Ágætis sigur í höfn samt sem áður og greinilegt að Peter þjálfari Bolin er komin með heilstætt lið sem getur haldið úti krafti og aga leik eftir leik. Á sunnudagskvöldið reynir síðan á hvort liðið geti klárað mótið með sömu áfergju og yfirvegun, en þá mæta Íslendingar Mexókóum sem eru mjög sterkir.
Allir leikmenn Íslands áttu góðann leik en þó ber að nefna sérstaklega þá Ágúst Ásgrímsson í vörninni, sem spilaði af mikilli skynsemi allan leikinn, og svo sóknarmennina Jón Gíslason og Jónas Breka - geysilega fljótir og vinnusamir. Einnig var Ingvar varnarmaður mikilvægur fyrir liðið og alltaf hættulegur í sókninni. Hjá Írum var Garrett MacNeill mjög sterkur og útsjónasamur í vörninni.
Fjölmargir áhorfendur lögðu leið sína í höllina og skemmtu sér vel og það var eftirtektarvert að "nýjum" andlitum fjölgar alltaf á bekkjunum Íþróttin virðist höfða til fleiri og fleiri enda umfjöllunin um mótið búin að vera mjög góð, og þá sérstaklega í Morgunablaðinu sem birt hefur reglulega fréttir af gangi íslenska liðsins.
Afritað af síðu SR www.skautafelag.is