08.11.2005
Forseti ÍSÍ, Ellert B. Schram, formaður Laganefndar ÍSÍ, Lárus Blöndal og framkvæmdastjóri ÍSÍ, Stefán Konráðsson áttu í dag fund með forsvarsmönnum Íshokkísambands Íslands, þeim Viðari Garðarssyni formanni og Bjarna Gautasyni stjórnarmanni.
Fundurinn var haldinn vegna bréfs sem ÍSÍ sendi til Íshokkísambands Íslands fyrir helgi vegna átaka sem urðu í íshokkíleik Bjarnarins og SA og sýnd hafa verið ítrekað í sjónvarpi.
Að mati framkvæmdastjórnar ÍSÍ eru átök í íþróttaleik af því tagi sem þarna áttu sér stað, algerlega óásættanleg bæði fyrir viðkomandi íþróttagrein og hreyfinguna í heild. Á fundinum í dag voru lagðar fram upplýsingar um málið, kynntar agareglur sambandsins og vinnureglur þar að lútandi en Íshokkísamband Íslands var stofnað 6. nóvember 2004 og sem slíkt er það að taka sín fyrstu skref sem sérsamband.
Fram kom í máli forsvarsmanna ÍHÍ að atvik það sem upp kom í áðurnefndum leik væru ekki hluti af íþróttinni og skilaboð um það til íþróttahreyfingarinnar yrðu að vera skýr. Aðilar eru af þessu tilefni sammála um að hefja endurskoðun á agareglum sambandsins með það að markmiði að taka sérstaklega á grófum brotum. Er að því stefnt að nýjar agareglur flytji iðkendum þau afdráttarlausu skilaboð að ofbeldisbrot verði ekki liðin í íþróttagreininni. Laganefnd ÍSÍ mun verða Íshokkísambandinu til aðstoðar í málinu.