Hokkímenn í Ástralíu

Í vor heyrðist af því að tvær stelpur sem spilað hafa íshokkí hérna heima á Íslandi hefðu ákveðið að skella sér í víking til Ástralíu til að spila íshokkí. Hjá andfætlingunum er nú hávetur og hitastigið þar svipað og hér á landi. Það eru þær Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir úr Birninum og Sarah Smiley úr SA og núverandi þjálfari kvennalandsliðsins sem tóku sér þetta langa ferðalag á hendur. Þær hafa spilað með liði sem heitir með Sydney Bears og ekki þarf að fara mörgum orðum um hvar það er staðsett. Spilað er um hverja helgi og æft einusinni í viku en stelpurnar hafa ekki látið það duga heldur einnig spilað fáeina leiki með Sydney Bears oldboys og haft gaman að. Í NSW kvennadeildinni eru sex lið og samkvæmt því sem þær sögðu mér er þó nokkur getumunur á liðum. Þær völdu liðið í neðsta sæti til að spila með en einnig hefur Sarah þjálfa NSW liðið, sem er lið bestu leikmanna úr öllum sex liðunum ásamt því að Steinunn tók að sér að vera tækjastjóri liðsins. NSW liðið stóð uppi sem sigurvegari í mótslok og má því segja að þær stöllur teljist Ástralíumeistarar þetta árið. Aðspurðar sögðu þær að þetta hefði verið frábær reynsla fyrir þær og gaman að kynnast stelpunum sem þær munu keppa við í komandi HM sem fram fer á næsta ári. Alls ekki er ólíklegt að einhverjar fleiri stelpur feti í fótspor þeirra enda komin á góð tengsl við andfætlingana og því lítið mál að koma leikmannaskiptum á. Þær stöllur munu svo mæta hressar á klakann í lok ágúst. Með þeim Söruh og Steinunni á myndinni er Jo Sonter, elsta konan sem spilar íshokkí í Ástralíu, en hún er 56 ára.

HH