Hokkíhelgi

Um helgina, nánar tiltekið á laugardeginum, hefst keppni í meistaraflokki karla á íslandsmótinu í íshokkí. Að þessu sinni hefst keppnin á Akureyri með leik Skautafélags Akureyrar og Bjarnarins og hefst leikurinn klukkan 17.30 Liðin mæta til leiks að mestu óbreytt frá því á síðasta ári nema hvað norðanmenn hafa misst Kóp Guðjónsson til Bjarnarins og Andri Már Mikaelsson hefur haldið í víking til Svíþjóðar til að spila hokkí.

Bjarnarmenn geta reyndar ekki stillt upp sínu sterkasta liði því Birgir Hansen er veikur, Brynjar Þórðarson er erlendis og Daði Örn Heimisson er meiddur.

Keppnin í meistaraflokki karla er með aðeins breyttu sniði þetta árið. Umferðum hefur verið fækkað úr tuttugu í sextán og nú er leikið milli landshluta í miðri viku. Þetta verður til þess að úrslitakeppnin verður spiluð fyrr en áður en hún hefst í byrjun mars. Þá er keppnin hér heima orðin svipuð og t.d. í Danmörku, þ.e. spilað þéttar og með því gefst meiri tími til að undirbúa landsliðið fyrir HM.

Strax að leik loknum hefst leikur 3. flokk sömu liða.

Ekki er enn fullvíst hvort leikurinn verður í textalýsingu hér á síðunni en við birtum frétt um það þegar nær líður.

Mynd Sigurgeir Haraldsson

HH