27.03.2009
Þá er komið að einni enn hokkíhelginni en að þessu sinni er ekki alveg vitað hversu stór hún verður. Eitt er þó öruggt og það er að leikið verður í Skautahöllinni á Akureyri á morgun laugardag. Þar leika þriðja leik í úrslitum lið Skautafélags Akureyrar og Skautafélgas Reykjavíkur og hefst leikurinn klukkan 17.00. Eins og flestir hokkíáhugamenn vita er staðan í einvíginu þannig að SR-ingar hafa unnið tvo leiki en SA-menn engann. Leikurinn á morgun er því stórleikur án nokkurs vafa og ástæða til að fjölmenna í höllina fyrir norðan. Ekki er annað vitað en að allir leikmenn liðanna séu heilir þótt sjálfsagt megi segja að þeir séu mismunandi heilir.
Fari svo að norðanmenn hafi sigur á morgun kemur til fjórða leiks. Hann verður leikinn strax daginn eftir í Skautahöllinni í Laugardal og hefst klukkan 17.00 rétt eins og leikurinn daginn áður. Leikirnir eiga að vera í netlýsingu hérna á síðunni hjá okkur fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. Fjölmennt var í Laugardalnum á miðvikudaginn og vonandi verður góð mæting ef til leiksins kemur.
Myndina tók Sigurgeir Haraldsson
HH