20.03.2009
Hokkíhelgin að þessu sinni hefst stundvíslega klukkan 7.30 á laugardagsmorgni með því að Bautamótinu. Þar keppa 4. og 5. flokkar félganna frá morgni til kvölds. Hafist verður aftur handa á sunnudagsmorgninum nema þá fær mannskapurinn að sofa út þvi ekki verður byrjað fyrr en klukkan 08.00. Mótinu lýkur svo um fjögurleytið með verðlaunaafhendingu og pizzuveislu.
Klukkan 17.00 á sunnudeginum fer síðan fram fyrsti leikur í úrslitum meistaraflokks karla. Þar leika Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur og það lið sem fyrst verður til að landa þremur sigrum stendur uppi sem íslandsmeistari. Spennan hefur smátt og smátt verið að byggjast upp og gera má ráð fyrir hörkuleik milli liðanna tveggja. Allir leikmenn eiga að vera heilir heilsu og liðin stilla því upp sínum sterkustu mönnum. Það verður því fjör í höllinni fyrir norðan á sunnudaginn og algjör skyldumæting. Fjörið færist síðan suður yfir heiðar á miðvikudaginn næsta en meira af því síðar.
Myndina tók Sigurgeir Haraldsson
HH