03.01.2010
Í dag hefst keppni í 3ju deild heimsmeistaramóts Alþjóða Íshokkísambandsins (IIHF) og fer keppnin fram í Istanbul í Tyrklandi. Eins og áður hefur komið hér fram þá er íslenska liðið í riðli með Tyrkjum, Tævan og Norður-Kóreu. Í hinum riðlinum eru Ástralía, Nýja-Sjáland og Búlgaría.
Fyrsti leikur liðsins er gegn Tævan sem er algjörlega óskrifað blað í íþróttinni. Leikurinn hefst klukkan 16.30 að staðartíma en tveggja tíma mismunur er milli landanna og því ættu áhugasamir að kíkja klukkan 14.30 á vefinn okkar. Settur hefur verið upp tengill inn á síðu IIHF hægra megin á síðuna hjá okkur og því auðvelt að koma sér í upplýsingar.
Ein breyting var gerð á liðinu stuttu fyrir brottför en Jóhann Már Leifsson kom inn í stað Sigurðar Óla Árnasonar sem tognaður er á nára. Önnur meiðsl í liðinu eru ekki alvarleg nema hvað Orri Blöndal hefur kennt sér meins í hendi en vonast er til að þau lagist á meðan á keppninni stendur.
Íslenska liðið kom seint til Istanbul í gærkvöld svo litlar fréttir eru enn að hafa af liðinu. Fararstjórn vinnur sjálfsagt nú á fullu við að skrá liðið inn á mótið ásamt því að sinna öðrum þeim verkefnum sem upp á koma. Einhver vandræði ku vera með netsamband þar sem liðið heldur til en vonandi stendur það til bóta. Liðið átti stuttan tíma á ís í morgun og sjálfsagt hefur hann verið notaður til að fá smá hreyfingu á blóðið í leikmönnum. Við vonumst að sjálfsögðu til að geta birt ferðasögu frá einhverjum úr fararstjórn þegar líða fer á ásamt myndum.
HH