Það verður nóg um að vera í hokkílífi sunnan heiða þessa helgina en alls verða fjórir leikir leiknir þar af þrír í Hertz deildum karla og kvenna.
Fjörið hefst strax í kvöld klukkan 19.45 þegar SR og SA Víkingar mætast í Laugardalnum. Bæði lið töpuðu síðasta leik og því án nokkurs vafa mikill áhugi á að ná í stigin þrjú sem eru í boði. SR-ingar eru enn án Miloslav Racinsky og Daníel Steinþórs Magnússonar og er það skarð fyrir skildi. Víkingar hafa hinsvegar fengið úr fríi þá Sigurð Reynisson og Ivan Reitmeyer sem eflaust munu styrkja liðið.
Fyrsti leikur á laugardeginum er leikur Bjarnarins og UMFK Esju og hefst hann klukkan 18.30 í Egilshöll. Bæði lið mæta vel mönnuð þótt eitthvað sé um smávægileg meiðsli hjá Leikmönnum. Charles Willams er kominn aftur úr fríi og hægt að lofa hörkuleik í höll Egils.
Einn leikur fer síðan fram í Hertz-deild kvenna en þá mætast SR og SA Ásynjur og hefst leikurinn klukkan 21.00. SR-konur hlutu sitt fyrsta stig í leik gegn Ynjum um miðjan desember en Ásynjur eru erfiðar að sækja og munu mæta grimmar til leiks.
Einn leikur fer fram í 2. flokki á morgun en þá mætast SR og SA í Laugardalnum og hefst sá leikur klukkan 18.30.
Mynd: Elvar Freyr Pálsson
HH