Helgin

Segja má að helgin hafi verið SR-inga að mörgu leyti. Þeir léku þrjá leiki gegn norðanmönnum í Skautafélagi Akureyrar og unnu þá alla ásamt því að halda skemmtilegt Laugardalsmót í 6. og 7. flokki barna.

Föstudagsleikur
Segja má að fyrri leik liðanna hafi prýtt allt sem þarf í góðum hokkíleik. Reyndar var markaskorunin í rólegri kantinum til að byrja með og það var ekki fyrr en á þrettándu mínútu sem fyrsta markið leit dagsins ljós. Þar var á ferðinni Andri Þór Guðlaugsson eftir stoðsendingu frá Pétri Maack.
SA-menn voru fljótir að svara og næstu þrjú mörkin voru þeirra. Tvö markanna komu fyrir hlé en eitt stuttu eftir og í öll skiptin var það Josh Gribben sem skoraði. SR-ingar bættu hinsvegar í og á fimm mínútna kafla komu þeir með þrjú mörk og voru þar að verki bræðurnir Egill og Gauti Þormóðssynir og Daniel Kolar. Staðan því 4 – 3 og leikurinn nákvæmlega hálfnaður. Það sem eftir lifið leiks má segja að SA-menn hafi jafnað og SR-ingar jafn harðan komist yfir aftur. Þegar rúmlega þrjár mínútur lifðu leiks jafnaði Steinar Grettisson í 6 – 6 og spenna því æði mikil en einungis liðu 14 sekúndur þangað til Egill Þormóðsson skoraði sigurmark þeirra SR-inga og þrátt fyrir ákafar tilraunir náðu norðanmenn ekki að jafna. (Lotur 1:2, 4:2, 2:2)

Mörk/stoðsendingar SR:

Egill Þormóðsson 3/1
Daniel Kolar 2/3
Gauti Þormóðsson 1/2
Andri Þór Guðlaugsson 1/0
Óskar Grönholm 0/1
Pétur Maack 0/1

Brottvikningar SR: 43 mín.

Mörk/stoðsendingar SA:

Josh Gribben 4/2
Stefán Hrafnsson 1/2
Steinar Grettisson 1/1
Jón B. Gíslason 0/1
Helgi Gunnlaugsson 0/1

Brottvikningar SA: 37 mín.

Laugardagsleikur
Eitthvað hafði kvarnast úr liðunum frá kvöldinu áður þar sem Jón B. Gíslason var meiddur og einnig Guðmundur Björgvinsson en einnig var Andri Már Mikaelsson í leikbanni. Það breytti þó engu um það að áhorfendur fengu aftur að sjá hokkíleik sem var spennandi fram á síðustu mínútu og hin fínasta skemmtun. Að þessu sinni þurftu áhorfendur hinsvegar ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu því þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum skoraði Tómas Tjörvi Ómarsson mark eftir stoðsendingu frá Sindra Gunnarssyni. Sindri Björnsson jafnaði metin fyrir SA með því að skora hjá bróðir sínum Ævari og segja má að þar hafi langþráður draumur rætzt.  SR-ingar komust yfir fyrir lok lotunnar og var það endurtekning frá kvöldinu áður þegar Andri Þór Guðlaugsson skoraði eftir stoðsendingu frá Pétri Maack. Staðan því 2 – 1 SR í vil. Í annarri lotu skitpust liðin á að sækja en SR-ingar voru fyrri til og aftur var það Tómas Tjörvi en að þessu sinni með stoðsendingu frá Gauta Þormóðssyni. Norðanmenn komu sér hinsvegar inn í leikinn aftur á næstu þremur mínútum með mörkum frá Steinari Grettissyni og Orra Blöndal. Steinar Páll kom SR-ingum yfir eina ferðina enn og aftur jöfnuðu SA-menn og Sindri hrósaði öðrum sigrinum yfir Ævari bróðir sínum. Þetta var jafnfram síðasta markið í lotunni og staðan því 4 – 4 og allt gat gerst. Síðasta lotan bar þess aðeins merki að menn væru farnir að þreytast. Aðeins eitt mark leit dagsins ljós í lotunni og var það þ.a.l. sigurmark leiksins. Það var Gauti Þormóðsson sem skoraði markið með góðu skoti eftir stoðsendingu frá Ævari Björnssyni markverði sínum. SA-menn gerðu sitt ýtrasta til að jafna leikinn á þeim sjö mínútum sem lifðu leiks en allt kom fyrir ekki.

Mörk/stoðsendingar SR:

Tómas Tjörvi Ómarsson 2/0
Gauti Þormóðsson 1/1
Andri Þór Guðlaugsson 1/0
Steinar Páll Veigarsson 1/0
Sindri Gunnarsson 0/1
Pétur Maack 0/1
Daniel Kolar 0/1
Ævar Björnsson 0/1

Brottvísanir SR: 4 mín.

Mörk/stoðsendingar SA:

Sindri Björnsson 2/0
Orri Blöndal 1/1
Steinar Grettisson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1

Brottvísanir SA: 8 mín.

HH