27.03.2008
Það er orðið ljóst að Íslenska kvennalandsliðið í íshokkíi hefur unnið til gullverðlauna á heimsmeistaramóti kvenna í fjórðu deild, sem stendur yfir í Miecurea Ciuc i Rúmeníu. Stúlkurnar eiga eftir að leika síðasta leikinn en þau úrslit koma ekki til með að skipta máli, fyrsta sætið er þeirra. Það voru úrslit í leik Eistlendinga og Rúmena fyrr í kvöld sem gerðu út um stöðu íslenska liðsins en sá leikur endaði 8-1 fyrir Rúmena. Síðasti leikurinn er við Eistland á laugardag.
Segja má að íslensku stelpurnar hafi lyft grettistaki, í ljósi þess hversu fáar konur stunda íshokkí á Íslandi og liðið þar af leiðandi með litla leikreynslu. Stúlkurnar hafa náð þetta langt á mikilli einbeitingu og sterkri liðsheild, baráttan hefur verið hörð en stúlkurnar ekki gefið þumlung eftir. Þjálfari liðsins, Sarah Smiley hefur unnið hörðum höndum, bæði skipulagt undirbúning leikmanna og leikkerfi liðsins á mótinu. Þetta tvennt, sérstaklega góður liðsandi og frábær þjálfari hafa skilað þessum eftirtektarverða árangri. Við óskum íslenska kvennalandsliðinu til hamingju.