18.11.2005
Um helgina fer fram í Skautahöllinni í Laugadalnum mót á vegum IT ferða í samvinnu við Skautafélag Reykjavíkur. Fimm lið eru skráð til keppni, þrjú íslensk og tvö frá Bandaríkjunum. Skautafélag Akureyrar, Skautafélag Reykjavíkur og Björninn hafa öll innan sinna raða leikmenn sem komnir eru af “léttasta skeiðinu” og mynda svo kölluð old boys lið. Liðin eru samsett bæði af leikmönnum sem spilað hafa í eina tíð sem og menn sem byrjuðu á fullorðinsárum að iðka íþróttina.
Þessi lið æfa einu sinni til tvisvar í viku og eru skemmtileg viðbót við flóru hvers félags. Öðru hverju koma hingað erlend lið með svipaða samsetningu og úr verða venjulega skemmtileg mót, en skemmst er að minnast Icelandair cup sem haldið var í Egilshöllinni á dögunum en þar var mætt eitt lið frá Kanada.
Mótið í Laugadalnum hefst í kvöld og lýkur annað kvöld og um að gera fyrir áhugasama að leggja leið sína í Laugadalinn og fylgjast með hokkíleikjum þar sem leikgleðin ræður ríkjum. Meðfylgjandi mynd er af Birgi Ágústssyni einum þrautseigasta leikmanni síðari tíma og ekki útilokað að hann láti sjá sig á ísnum um helgina.