26.04.2006
Leikur Armena gegn Írum í gærkvöldi var sögulegur þar sem um var að ræða fyrsta alþjóðlega sigur þeirra fyrrnefndu. Armenía hafði mikla yfirburðir í leiknum og vann leikinn 6-0 (3-0, 3-0, 0-0). Armenía sem er eitt af fyrrum Sovétlýðveldunum hefur verið að byggja upp íþróttina á undanförnum árum og hefur hingað til ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum á heimsmeistaramótum. Nú hins vegar er allt annað að sjá til liðsins sem byrjaði á því að koma á óvart með óvenju góðum árangri gegn Tyrkjum í fyrsta leik, sem reyndar tapaðist en engu að síður var leikurinn skemmtilegur á að horfa. Sigurinn gegn Írum kom mjög á óvart þar sem reiknað var með sterku liði frá Írlandi auk þess sem styrkur Armena kom öllum í opna skjöldu. Ísland vann Armena mjög stórt þegar liðið mættust í fyrsta og eina skiptið hingað til hér á heimavelli árið 2004 en það má ljóst vera að þeir munu veita miklu harðari keppni að þessu sinni og því mikilvægt fyrir okkar menn að mæta vel tilbúnir til leiks.