Fyrsti leikur vetrarins í Egilshöll klukkan 19:00 á laugardag

 
Mótanefnd ÍHÍ hefur átt í nokkrum vandkvæðum með að koma saman dagskrá vetrarins, en nú sér fyrir endan á því.  Settir hafa verið á 4 leikir í meistaraflokki næstu daga á meðan að nefndinni gefst ráðrúm til þess að raða endanlega saman dagskrá vetrarins fyrir alla aldursflokka.
Laugardagur 25.09.2004  Björninn-Narfi í Egilshöll kl. 19:00, aðaldómari Helgi Páll Þórisson
Þriðjudagur 28.09.2004 Björninn-SR í Egilshöll tími gefin út síðar, aðaldómari Mikael Kobezda 
Laugardagur 02.10.2004 SA-Narfi Akureyri kl. 19:00, aðaldómari Ágúst Ásgrímsson
Sunnudagur 03.10.2004 Narfi-SA Akureyri  kl. 10:00, aðaldómari Ágúst Ásgrímsson

Dregið var um leikröð liða og það kom í hlut Bjarnarins að opna íslandsmótið á heimavelli sínu í Egilshöll með því að leika við nýliða deildarinnar Ungmennafélagið Narfa Hrísey.
Ungmennafélagið Narfi er skipað mörgum gömlum og reyndum leikmönnum sem koma flestir úr röðum SA og SR og hafa með því að ganga til liðs við Narfa lengt feril sinn sem íshokkíleikmenn.  Meðal leikmanna er Sigurður Sigurðsson úr SA sem hingað til hefur unnið alla Íslandsmeistaratitla frá því að keppni þriggja liða hófst árið 1991. Af öðrum leikmönnum má nefna Elvar Jónsteinsson SR, Jónas Stefánsson SR og Héðinn Björnsson SA sem allir hafa spilað með landsliði Íslands á ferlinum.
Lið Bjarnarins er ungt en samt reynslumikið og kemur í leikinn undir styrkri stjórn þjálfarans og leikmannsins Sergei Zak sem Íslensku hokkíáhugafólki er að góðu kunnur. Bjarnarmenn mæta með erlendan markmann Connor Wite sem að kemur frá Ástralíu, Connor hefur áður leikið með Bjarnarliðinu og mun án efa styrkja það enda voru Bjarnarmenn í nokkrum markmanns vandræðum á síðasta tímabili vegna meiðsla.
Mikill áhugi er á leiknum og mesta spennan er að sjá hvernig Narfarnir líta út á svellinu.  Ekki er vafi á að það verður gaman í Egilshöll kl. 19:00