Framkoma til sóma!

Vegna ummæla Magnúsar Jónasonar á vefsíðu Bjarnarins og í öðrum fjölmiðlum í dag vill undirritaður koma nokkrum atriðum á framfæri.
 
Vissulega er 50 marka munur mikill og í raun allt of mikill.  En taka verður tillit til þess að hér er um deild í heimsmeistaramóti að ræða þar sem að markamunur getur haft áhrif á endanlega stöðu liða. Magnús beinir gagnrýni sinni að þjálfara og fararstjórn liðsins, algerlega að ósekju.
 
Í umræddum leik gaf þjálfari liðsins leikmönnum skipun um það að draga af sér og leika ekki af fullu afli, ásamt því að hann bannaði alla líkamlega snertingu við leikmenn Armenna.  Þetta gerði hann þar sem fljótlega var ljóst að lið Armenna var verulega veikburða. Leikmenn Íslands gátu skorað að vild þar sem að fyrirstaða mótherjana var nánast engin. Leikurinn hefði þannig getað endað í mun stærri tölu hefðu leikmenn Íslands haft orð þjálfara síns að engu og beitt fullu afli, kunnáttu sinni og færni.
 
Aðalfararstjóri Íslands í þessari ferð hefur þegar lagt fram tillögu við mótsnefnd að komi til þess að raða verði liðum í sæti á markamun verði leikir gegn liði Armeníu ekki taldir með í þeim útreikningum.  En meðan að tillaga þessi er óafgreidd er það staðreynd að markamunur getur haft úrslitaáhrif um niðurröðun í sæti.
 
Ábyrgð Armennska íshokkísambandsins er hér nokkur, þeim er fyllilega ljóst hvaða styrk andstæðingarnir hafa og einnig hvaða reglur gilda um niðurröðun á markamun verði lið jöfn á stigum. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að A-landslið Íslands vann Armeníu á heimsmeistaramóti 2004 með ríflega 30 marka mun. Þannig verður að setja spurningamerki við þátttöku liðs í heimsmeistarakeppni sem varla hefur grunngetu á skautum eins og var í þessu tilfelli.
 
Magnúsi verður tíðrætt um tap U-18 ára landsliðs Íslands gegn Kazakstan 1997 sem endaði 63 – 0 til samanburðar. Í þeim leik duldist engum að lið Kazakstan lék þann leik að fullu afli og sló hvergi af. Svo langt gékk þetta að þjálfari liðs Kazakstan hundskammaði leikmenn sína ef sóknir liðsins skiluðu ekki marki í hverri sókn. Leikmenn Íslands voru þar keyrðir niður á svellinu trekk í trekk og lið Kazakstan notaði alla aflsmuni sína til þess að gera lítið úr leik okkar manna.  Enda yfirburðir þeirra algerir.
 
Gagnrýni Magnúsar á leik Íslands gegn Armeníu hefði kannski átt rétt á sér ef að leikmenn Íslands hefðu leikið þennan leik af fullu afli og þannig gert sitt ýtrasta til þess að niðurlægja leikmenn andstæðingana. En það var ekki raunin í þessu tilfelli. Sérstaklega var tekið eftir því að lið Íslands sýndi íþróttamannslega framkomu með því að leika greinilega undir getu og færni og þannig sýndi liðið andstæðingum sínum virðingu eins og hægt var með leik sínum.
 
Með íþróttakveðju
 
Viðar Garðarsson
formaður ÍHÍ.