05.01.2006
Ferðalagið var langt og strangt og það sýndi sig nú hve mikilvægt það er að leggja tímanlega af stað. Fyrst var flogið til Stokkhólms og eftir 8 klst bið var liðinu ekið með rútu út á flugbraut að flugvél merktri Lithuanian airlines. Flugvélina væri betra að kalla rellu því hún var minni en fokker vélarnar í innanlandsfluginu heima. Með herkjum gat liðið troðið sér í vélina en því miður komst ekki nema hluti farangursins með og því varð að skilja 11 af okkar töskum eftir í Stokkhólmi. Flugstjórinn kom sjálfur fram og tjáði okkur það að töskurnar kæmu strax morguninn eftir en ekki gekk það nú eftir og nokkrir leikmenn misstu af fyrstu æfingunni. Töskurnar komu svo að morgni 4. jan og því voru allir komnir í galla fyrir fyrsta leikinn.
Vegna þessara tösku og svo vélarbilunar í framhaldinu töfðumst við á flugbrautinni í tvo klukkutíma. Í Vilnius tók svo við þras og bras vegna farangursins en þegar við loksins komumst á hótelið var klukkan orðin 3:30 og mannskapurinn orðin heldur framlágur.
Það var þó huggun harmi gegn að aðbúnaður hér er góður, hótelið snyrtilegt og maturinn góður. Skautahöllin er sömuleiðis ágæt, hefur reyndar ekki verið máluð já eða þrifin síðan á 8. áratug síðustu aldar en við höfum séð það verra.
Strákarnir eru allir við hestaheilsu og það er góður andi í hópnum. Ed raðaði strákunum í herbergi og mun herbergis listinn birtast hér á síðunni innan skamms.