Eins og fram hefur komið, m.a. í Morgunblaðinu 18. mars sl., hafa íshokkíunnendur fengið góða gesti í heimsókn frá Kanada. Til landsins er komið kvennalið frá Winnipeg sem leikur hér undir merkjum Fálkanna en meðal þjálfara og leikmanna liðsins eru náinn skyldmenni hinna upprunalegu Fálka frá Winnipeg. Liðið lenti í Keflavík í gærmorgun og tók Viðar Garðarsson formaður ÍHÍ á móti hópnum í Keflavík, með honum í för voru Steinunn Sigurgeirsdóttir, Jóhanna Ólafsdóttir og Carol Maggiacomo. Þær Steinunn Jóhanna og Carol lóðsuðu síðan hópinn í skoðunarferð um Reykjanes og skelltu sér svo í Bláa Lónið á leið sinni til Reykjavíkur. Í gærkvöldi var síðan móttaka fyrir liðið í utanríkisráðuneytinu í boði Atla Ásmundssonar aðalræðismanns Íslands í Kanada.
Í dag hefur liði ferðast um suðurland í skoðunarferð og farið m.a. um Þingvelli og stoppað við Gullfoss og Geysi og einnig var Kerið í Grímsnesi skoðað, leiðsögumenn í ferðinni eru Sólveig Smáradóttir og Carol Maggiacomo eiginkona Ed þjálfara SR en þau hjónin eru einmitt frá Winnipeg.
Fyrsti leikur liðsins er gegn Bjarnarstelpum í kvöld kl 19:30 og þessi sömu lið leika annað kvöld kl. 21:00. Fálkarnir leika svo við Skautafélag Akureyrar á fimmtudagskvöld kl. 19:00 og við íslenska landsliðið á Akureyri næstkomandi laugardag kl. 18:00.
Myndin sem fylgir þessari frétt er fengin að láni frá heimsíðu sem er tileinkuð
Fálkunum frá Winnipeg.